Handbolti

Elín Jóna varði á ögurstundu í mikilvægum sigri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elín Jóna í leik með íslenska landsliðinu.
Elín Jóna í leik með íslenska landsliðinu. HSÍ

Ringköbing, lið Elínar Jónu Þorsteinsdóttur, vann mikilvægan sigur á Ajax í danska handboltanum í dag. 

Lið Ringköbing er í fallbaráttu í næst efstu deild í Danmörku og leikurinn í dag sannkallaður fallbaráttuslagur enda Ajax og Ringköbing með jafn mörg stig í næst neðsta og þriðja nesta sæti deildarinnar.

Elín Jóna byrjaði í marki Ringköbing í leiknum og varði fjögur skot á fyrstu tuttugu mínútum leiksins áður en hún settist á bekkinn. Leikurinn var jafn en heimaliðið Ajax með frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddi að honum loknum 16-14.

Í síðari hálfleik hélt Ajax frumkvæðinu en í stöðunni 25-22 kom Elín Jóna aftur í mark Ringköbing sem náði þá að snúa leiknum sér í vil. Liðið skoraði fimm mörk í röð og var skyndilega komið í forystu.

Ringköbing komst í 27-26 þegar 50 sekúndur voru eftir og heimaliðið tók leikhlé og freistaði þess að jafna metin. Þegar fjórar sekúndur voru eftir komst Suna Hansen í gegn en Elín Jóna varði og tryggði Rinköbing afar mikilvægan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×