Handbolti

Mikkel Hansen í veikindaleyfi vegna stress og álags

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikkel Hansen ætlar að taka sér frí frá handbolta og snúa endurnærður til baka.
Mikkel Hansen ætlar að taka sér frí frá handbolta og snúa endurnærður til baka. getty/Kolektiff Images

Danska handboltastjarnan Mikkel Hansen er farinn í veikindaleyfi vegna álags og stresseinkenna eftir erfitt ár. Félag hans, Álaborg, greinir frá þessu í dag.

Í frétt á heimasíðu Álaborgar kemur fram að þessi ákvörðun hafi verið tekin í samráði við nánustu fjölskyldu Hansens, lækna og félagið.

„Þetta hefur verið viðburðarríkt ár fyrir Mikkel. Fyrst fékk hann blóðtappa vorið 2022, flutti síðan heim til Danmerkur eftir tíu farsæl ár erlendis, athyglin í tengslum við félagaskiptin til Álaborgar og loks HM í janúar,“ er haft eftir Jan Larsen, forseta Álaborgar, í fréttinni.

Þar segir enn fremur að ljóst hafi verið að glasið hafi verið barmafullt eftir HM í síðasta mánuði þar sem Danir stóðu uppi sem sigurvegarar, þriðja heimsmeistaramótið í röð.

Hinn 35 ára Hansen gekk í raðir Álaborgar í sumar eftir að hafa leikið með Paris Saint-Germain í áratug. Hjá Álaborg leikur hann með Aroni Pálmarssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×