Handbolti

Ystad bjargaði stigi gegn Ferencváros

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nagy Bence skoraði 14 mörk fyrir Ferencváros í kvöld.
Nagy Bence skoraði 14 mörk fyrir Ferencváros í kvöld. Vasile Mihai-Antonio/Getty Images

Sænska liðið Ystads bjargaði stigi með seinasta skoti leiksins er liðið tók á móti Ferencváros í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 35-35, en stigið lyftir Ungverjunum upp fyrir Valsmenn í fjórða sæti B-riðils.

Fyrir leik kvöldsins hafði Ystad unnið fimm leiki í Evrópudeildinni í röð og með sigri hefði liðið tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

Það voru þó gestirnir frá Ungverjalandi sem byrjuðu leikinn betur og þeir náðu fljótt upp tveggja marka forskoti sem þeir héldu framan af í fyrri hálfleik. Munurinn á liðunum varð þó aldrei meiri en tvö mörk í fyrri hálfleiknum og Svíarnir náðu forystunni um miðbik fyrri hálfleiksins. Þér héldu henni fram að hálfleikshléi, en staðan var 19-18 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Áfram ríkti jafnræði með liðunum í í síðari hálfleik og liðin skiptust á að hafa forystuna. Ungverjarnir skoruðu svo fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni úr 29-28 í 29-32 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Heimamenn í Ystad náðu loks að jafna metin þegar um mínúta var til leiksloka, en gestirnir tóku forystuna á ný hálfri mínútu síðar. Svíarnir nýttu þó lokasóknina sína vel og tryggðu sér dramatískt jafntefli á lokasekúndunum, lokatölur 35-35.

Ystads situr enn í öðru sæti riðilsins eftir leik kvöldsins, en liðið er nú með 11 stig eftir átta leiki og er komið með annan fótinn og meira til inn í 16-liða úrslitin. Ferencváros lyfti sér hins vegar upp í fjórða sæti riðilsins með sex stig, einu stigi meira en Valsmenn sem leika gegn Benidorm í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×