Umfjöllun og viðtal: KA/Þór - Haukar 32-28 | Mikil­vægur sigur hjá Akur­eyringum

Árni Gísli Magnússon skrifar
Haukar KA/Þór. Olísdeild kvenna vetur 2022 handbolti HSÍ
Haukar KA/Þór. Olísdeild kvenna vetur 2022 handbolti HSÍ vísir/hulda margrét

KA/Þór lyfti sér upp fyrir Hauka í Olís deild kvenna með 32-28 sigri gegn þeim í KA-heimilinu nú í kvöld. Heimakonur komust mest 9 mörkum yfir í síðari hálfleik en Haukar náði að laga stöðuna og munurinn að lokum fjögur mörk.

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og liðin skiptust á að skora í upphafi. Frá 11. mínútu skoruðu heimakonur fjögur mörk gegn engu og breyttu stöðunni úr 7-6 í 11-6 á rúmum þremur mínútum.

Þegar fyrri hálfleikur var akkurat hálfnaður tóku Haukar leikhlé í stöðunni 13-7 fyrir KA/Þór. Eitthvað virðist Ragnar, þjálfari Hauka, hafa sagt gáfulegt í leikhléinu því að Haukakonur skoruðu næstu fjögur mörk leiksins og minnkuðu muninn niður í tvö mörk.

Ida Hoberg í liði KA/Þór meiddist þegar hún fékk hönd leikmanns Hauka í andlitið á meðan hún stóð vörn og virtist sárkvalin eftir það og þurfti að fara af velli. Hún hafði þarna skorað fjögur mörk úr fjórum skotum og ekki var útlit fyrir frekari þátttöku hjá henni í leiknum.

Liðin héldu áfram að keyra nokkuð hraðan bolta og staðan í hálfleik 19-16 KA/Þór í vil.

Sjúkraþjálfarar KA/Þór hafa náð að tjasla Idu Hoberg saman í hálfleik sem mætti af fullum krafti inn í seinni hálfleikinn og skoraði fyrsta markið og lét í kjölfarið reka sig út af í tvær mínútur.

Allur vindur virtist ú Haukum í seinni hálfleik en á 43. mínútu var KA/Þór komið 9 mörkum yfir, 28-19, og léku þær Ida, Nathalia og Rut á alls oddi í útilínu heimakvenna.

Heimakonur slökuðu þó full mikið á og náðu Haukar að minnka muninn niður í fjögur mörk, 30-26, þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Það reyndist of seint í rassinn gripið og KA/Þór kláraði leikinn fagmannlega með fjögurra marka sigri. Lokatölur 32-28.

Af hverju vann KA/Þór?

Þær spiluðu heilt yfir betur í dag en Haukarnir sem áttu nokkra erfiða kafla í leiknum þar sem lítið gekk upp. Sigurinn fyllilega verðskuldaður.

Hverjar stóðu upp úr?

Hjá KA/Þór var Ida Margrete Hoberg virkilega áræðin og skoraði 7 mörk úr 11 skotum ásamt því að spila flotta vörn. Anna Þyrí Halldórsdóttir var frábær í vörninni og endaði með átta löglegar stöðvanir.

Nathalia Soaares skoraði 9 mörk úr 16 skotum og Rut Jónsdóttir 5 mörk úr 7 skotum.

Í liði Hauka skoraði Ragnheiður Ragnarsdóttir 7 mörk úr 9 skotum og var með 5 löglegar stöðvanir. Þá skoraði Elín Klara Ólafsdóttir 6 mörk og Ena Car 5 mörk ásamt því að vera með fjórar löglegar stöðvanir.

Hvað gekk illa?

Haukum gekk illa að spila samfleytt vel í leiknum þar sem liðið datt nokkrum sinnum á lágt plan. Mikil orka fór í að elta leikinn undir síðari hluta seinni hálfleiks.

Hvað gerist næst?

KA/Þór mætir Stjörnunni í Garðabænum laugardaginn 18. febrúar kl. 16:00.

Á sama tíma mætast Haukar og Selfoss á Ásvölllum.

Kristín Aðalheiður: „Hún kemur með algjöra sprengju inn í liðið“

Kristín Aðalheiður fylgist með Aldísi Ástu Heimisdóttur skjóta að marki í leik með KA/Þór.Vísir/Hulda Margrét

Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir, leikmaður KA/Þór, skoraði 4 mörk úr fjórum skotum í sigri gegn Haukum í kvöld. Hún var hæstánægð með sigurinn og horfir fram veginn.

„Bara mjög sterkt að klára þetta. Liðsheildin klárlega kláraði þennan leik fyrir okkur.“

Ida Margrete Hoberg, dönsk skytta sem gekk nýverið til liðs við KA/Þór, meiddist í fyrri hálfleik eftir að hafa fengið högg á andlitið. Hún spilaði þó seinni hálfleikinn og endaði með 7 mörk. Hún komst ekki í viðtal þar sem hún brunaði beint upp á slysadeild eftir leik.

Hvernig er að spila með Idu?

„Hún kemur með algjöra sprengju inn í liðið, bara frábært að fá hana inn algjörlega.“

Undirritaður bjóst ekki við því að sjá Idu í seinni hálfleik miðað við meiðslin sem hún hlaut í þeim fyrri og Kristín tók undir það:

„Nei bjóst heldur ekki við því, hún fékk olnbogann í nefið og einmitt héldum að hún væri nefbrotin en svo inn í hálfleik sagði hún bara „I can play“ og það var bara þannig!“

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þór, sagði í viðtali eftir leikinn að það væri enginn möguleiki að ná fjórða sæti deildarinnar í síðustu sex leikjunum. Kristín vildi lítið tjá sig um það og henti í gamla góða klisju: „Við tökum bara einn leik í einu, það er bara svolítið svoleiðis, það er bara markmiðið okkar að klára einn leik í einu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira