„Listamessan er haldin í miðborg Los Angeles og er elsta messa borgarinnar. Þar koma saman gallerí alls staðar að úr heiminum til þess að kynna listamenn sína í 16.700 fermetra rými þar sem ægir saman hinum ýmsu miðlum listarinnar,“ segir Ásdís Þula.

Mörk raunveruleika og drauma
Gallerí Þula tók þátt þetta árið í samvinnu við Önnu Maggý.
„Verk hennar hverfast um efnisleika ljósmyndunar, mörk raunveruleika og drauma og hvernig við sjáum hluti í nýju ljósi.
Með því að þróa sífellt myndmál sitt kannar Anna Maggý óhefðbundna tækni og eftirvinnslu. Í stað þess að nota hugbúnað til að afbaka og breyta myndunum sínum prentar hún myndirnar og notar síðan gler, vatn, frost, málningu og önnur áþreifanleg efni til að vinna þær áfram og myndar myndirnar aftur og aftur í gegnum þetta ferli,“ segir Ásdís Þula.

Allt önnur stemning
Anna Maggý segir þessa reynslu skemmtilega en hún hefur sinnt ýmsum erlendum verkefnum í gegnum tíðina og hafa myndir hennar birst í ýmsum tímaritum.
„Það er ótrúlega gaman að sýna hér í LA. Hér er allt önnur stemning, skemmtilega öðruvísi platform og annar mannskapur. Ég er hér með bæði gömul og ný verk í bland þar sem bjögun á einn eða annan hátt er þráðurinn í gegn. Blár tónn er svo ríkjandi í öllum verkunum.“
High School Musical stjarna á svæðinu
Haldið var sérstakt opnunarkvöld þann 15. febrúar síðastliðinn þar sem leik- og söngkonan Ashley Tisdale var kynnir kvöldsins. Margir þekkja Tisdale úr High School Musical.

„Fjöldi fólks stoppaði við hjá íslenska básnum og þar á meðal nokkur kunnugleg andlit, enda margir íslenskir listamenn sem starfa í Los Angeles þessa dagana,“ segir Ásdís Þula að lokum.
Hér má sjá nokkrar velvaldar myndir til viðbótar frá opnuninni:



