Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Þar segir ennfremur að kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið 5.672 á síðasta ári en 8.454 árið 2021. Hafi þeim því fækkað um nærri þriðjung á milli ára og ekki verið færri á einu ári síðan 2013.
Fækkunin var litlu minni í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins þar sem samningum fækkaði úr 2.541 í 1.752 og annars staðar á landsbyggðinni fækkaði samningum úr 2.378 í 1.746.

Í skýrslunni segir að tólf mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hafi mælst 14,9 prósent en sex mánaða hækkun sé orðin neikvæð um eitt present á ársgrundvelli.
„Þetta er í fyrsta sinn síðan 2010 sem íbúðaverð lækkar á 6 mánaða tímabili. Svipaða sögu er að segja af nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en þar er 12 mánaða breytingin komin niður í 17,3% en 6 mánaða breytingin neikvæð um 0,7% á ársgrundvelli. Ástæða þess að svo mikill munur er á 12 mánaða og 6 mánaða breytingu íbúðaverðs er að íbúðaverð hækkaði mikið á fyrri hluta tímabilsins en verulega fór að hægja á verðhækkunum eftir að Seðlabankinn setti aukinn kraft í stýrivaxtahækkanir í maí,“ segir í skýrslunni.

Ennfremur segir að heildarskuldir heimila vegna íbúðalána hafi verið 9,1 prósent hærri í lok desember síðastliðnum en í lok desember 2021. Þær hafi dregist því saman um 0,4 prósent að raunvirði en þetta sé í fyrsta sinn síðan í nóvember 2016 sem tólf mánaða breyting á heildarútlánum er neikvæð að raunvirði.
Þá segir að bygging lítilla íbúða, á bilinu fjörutíu til sextíu fermetra, á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist mikið frá því sem áður var.