Umfjöllun og viðtöl: KA - Selfoss 29-35 | KA-menn steinlágu á heimavelli Árni Gísli Magnússon skrifar 26. febrúar 2023 19:40 Selfyssingar gerðu góða ferð norður. VÍSIR/HULDA MARGRÉT KA og Selfoss mættust í KA-heimilinu í dag í 17. umferð Olís deildar karla í handbolta. KA fyrir leikinn í 10. sæti en Selfoss í því sjöunda. Selfyssingar voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik en gerðu úti um leikinn í þeim seinni og unnu að lokum sex marka sigur. Lokatölur 29-35. Liðin skiptust á að skora í upphafi en eftir 8 mínútur í stöðunni 4-4 gáfu Selfyssingar í og skoruðu næstu þrjú mörk. Ísak Gústafsson var sjóðandi heitur í upphafi leiks en eftir stundarfjórðung hafði hann skorað 6 mörk úr 6 skotum og var illviðráðanlegur. Þarna var KA búið að jafna leikinn í 10-10 en misstu gestina aftur aðeins fram úr sér og staðan í hálfleik 16-18 eftir að Gauti Gunnarsson skoraði síðasta mark hálfleiksins úr hægra horninu hjá KA. Selfyssingar mættu á fullu gasi inn í síðari hálfleik og skoruðu fyrstu þrjú mörkin og voru skyndilega komnir fimm mörkum yfir. Jón Þórarinn Þorsteinsson skipti við Vilius Rasimas í marki gestanna í hálfleik og áttu stórleik en hann endaði með 10 varða bolta sem gerir 43,5% markvörslu. Selfoss hélt KA fjórum til fimm mörkum frá sér lengi vel en þegar rúmar 10 mínútur lifðu leiks kom 7-1 kafli Selfoss í vil og þeir því komnir níu mörkum yfir, 25-34, þegar einungis fimm mínutur voru eftir. Sigurinn var því kominn í höfn nokkuð snemma og endaði leikurin með sex marka mun, 29-35. Annan leikinn í röð hrynur leikur KA í seinni hálfleik sem er áhyggjuefni en liðið er einungis þremur stigum frá fallsæti. Selfoss lyftir sér upp í fimmta sæti eins og er en Fram og Stjarnan sem eru tveimur stigum á eftir og eiga leik inni. Af hverju vann Selfoss? Selfoss var skrefinu á undan KA í fyrri hálfleik en munurinn einungis tvö mörk. Í seinni hálfleik gáfu gestirnir allt í botn og keyrðu yfir KA liðið sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Þá hjálpaði frábær innkoma Jóns Þórarins í markinu heldur betur til. Hverjir stóðu upp úr? Jón Þórarinn Þorsteinsson stóð vaktina í marki Selfoss í seinni hálfleik og varði 10 bolta sem gerir 43,5% markvörslu. Ísak Gústafsson og Atli Ævar Ingólfsson enduðu báðir með 7 mörk en vörn KA átti í miklu basli með þá báða. Jens Bragi Bergþórsson, kornungur línumaður KA, var mjög góður á línunni og skoraði 6 mörk úr 8 skotum en þarna er á ferðinni frábær línumaður til framtíðar ef rétt verður haldið á spöðunum. Gauti Gunnarsson skoraði 6 mörk fyrir KA og Dagur Gautason 5 mörk. Hvað gekk illa? Seinni hálfleikur hjá KA gekk einfaldlega mjög illa. Hvað gerist næst? KA mætir Stjörnunni í Garðabæ fimmtudaginn 2. mars kl. 19:30. Selfoss og ÍR mætast á Selfossi föstudaginn 3. mars kl. 19:30. Guðlaugur: Verðum að geta haldið haus Guðlaugur Arnarson, aðstoðarþjálfari KA, stýrði liðinu gegn Selfoss í dag í fjarverju Jónatans Magnússonar sem var dæmdur í eins leiks bann vegna ummæla sinna í garð dómara eftir leik KA og Aftureldingu í Powerade bikarnum á dögunum þar sem Afturelding vann eftir framlengingu. „Mér fannst við bara koma afspyrnu illa inn í seinni hálfleikinn þar sem við leyfum þeim að komast fimm til sex mörkum yfir bara á fyrstu fjórum mínútum í seinni hálfleik og það er bara agaleysi og hausleysi og bara vantaði sjálfstraust í okkur í seinni hálfleik sem að orsakar það”, sagði Guðlaugur strax eftir leik en Selfyssingar skoruðu fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik og komust fimm mörkum yfir. Þetta er annar leikurinn í röð þar sem leikur liðsins hrynur í seinni hálfleik en það sama gerðist gegn ÍR í síðustu umferð. Þetta hefur sést áður á tímabilinu hjá KA en Guðlaugur segist ekki hafa útskýringu á því hvers vegna þetta gerist. „Ef við hefðum skýringuna þá værum við væntanlega búnir að vera vinna því sérstaklega en ég er alveg sammála að þetta veldur áhyggjum og við ræðum það líka núna inni í klefa að við verðum að geta haldið haus og verið inni í skipulaginu og aganum og haft trú á því sem við erum að gera. Það er svolítil vöntun á því í dag.” KA menn hafa verið að horfa í það að komast í úrslitakeppnina sem efstu átta liðin taka þátt í. Nú er staðan svo að KA er þremur stigum frá fallsæti en fimm stigum frá úrslitakeppnissæti. Hvernig horfir þjálfarateymi KA í það allt saman? „Í allan vetur höfum við bara verið að horfa á það, og við erum með þannig hóp, að við horfum á hverja æfingu og hvern leik fyrir sig og viljum vera bæta okkur. Þetta er ofboðslega metnaðarfullur hópur sem vill ná árangri. Við erum í ákveðnum fasa þar sem við erum að byggja upp ákveðna hluti líka og við horfum á það þannig að þessi leikur fór eins og hann fór og það er æfing eftir helgi og leikur á fimmtudaginn þannig það er ljóst að við verðum að fara safna einhverjum stigum í kassann.” Jens Bragi Bergþórsson er einungis á sautjánda aldursári en hefur undanfarið fengið tækifærið á línunni hjá KA og staðið sig virkilega vel. Hann skoraði 6 mörk úr 8 skotum í dag og lét vel til sín taka. Jens er bara gríðarlega efnilegur línumaður og hefur verið að gera mjög góða hluti hérna sóknarlega og varnarlega með sínum aldri og verið að góða góða hluti í þriðja flokki og U-liðinu hjá okkur og er að koma núna inn út af vöntun, út af meiðslum og annað. Hann sýndi mikinn anda í dag og á hrós skilið; einn af þeim fáum sem eiga það í dag hjá okkur. Ég er ánægður með hans framlag en við þurfum bara að halda áfram. Er Jens ekki bara að vinna sig inn í byrjunarliðið með svona frammistöðu? „Þegar hann skilar svona frammistöðu þá eiga menn skilið að spila”, sagði Guðlaugur einfaldlega. Einar Rafn Eiðsson spilaði fyrri hálfleikinn í dag en kom einungis inn í þeim seinni til að taka víti. Hvernig er staðan á honum? „Staðan á honum er þannig að hann meiddist í pásunni hjá okkur í janúar og er ekki alveg nógu góður en kannski mér að kenna að hnjakkast of lengi á honum inn í leikinn og áttum sennilega að hreyfa það aðeins betur en hún er ekki nógu góð.” Þórir: Virkilega gott hrós á strákana Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss, var ánægður með sterkan sigur sinna manna fyrir norðan í dag þegar Selfoss vann KA með sex mörkum. „Ég er bara heilt yfir mjög sáttur. Við sýndum bara ákveðinn styrk í dag með því að mæta á erfiðan útivöll og með vel stemmda KA menn á móti okkur og náðum að halda þessum góða leik hjá okkur bara eiginlega allan tímann. Það komu einhverjir kaflar þar sem við hleyptum þeim nálægt okkur og var svo sem jafnt í fyrri hálfleik meira og minna en bara seinni hálfleikurinn frábær varnarlega og hvernig strákarnir sýndu í dag virkilega flotta vörn og sókn og markverðirnir fínir í dag.” Mikil orka var í Selfoss liðinu í upphafi síðari hálfleiks sem skilaði þremur fyrstu mörkunum og liðið leit aldrei til baka eftir það og komst mest 9 mörkum yfir. „Við einblíndum á það sem við vorum búnir að fara yfir og hvar við vildum sækja og varnarlega hvernig við vildum vinna þar. Við breyttum svo sem ekkert rosalega miklu. Það var aðallega ákefðin sóknarlega og varnarlega sem menn komu með út úr þessum hálfleik sem var frábær og virkilega gott hrós á strákana hvernig þeir spiluðu í dag.” Jón Þórarinn Þorsteinsson stóð pliktina í marki Selfoss í seinni hálfleik og varði 10 bolta sem gerir 43,5% markvörslu. „Þetta er bara frábær markmaður og duglegur, æfir vel, og er að uppskera bara það sem hann er búinn að vera gera síðastliðin ár og virkilega gaman fyrir hann og okkur að hann sé að taka bolta.” Selfoss lyftir sér upp fyrir Fram og Stjörnuna í fimmta sætið en þau eiga þó leik inni. Lítill munur er á milli liðanna í þriðja til sjöunda sæti og því ekki úr vegi að spurja hvort Selfoss stefni á að enda í einum af efstu fjóru sætunum til að fá heimaleikjarétt í úrslitakeppninni? „Við bara stefnum eins hátt og við komumst en við vitum það að það eru öll lið að berajst um þessa punkta sem eru í boði og við erum bara búna byrjaðir að hugsa um næsta leik sem er ÍR á föstudaginn og það verður enn einn erfiði leikurinn á móti góðu liði þannig þetta er bara barátta fram í síðasta leik”, sagði Þórir að lokum. Olís-deild karla KA UMF Selfoss
KA og Selfoss mættust í KA-heimilinu í dag í 17. umferð Olís deildar karla í handbolta. KA fyrir leikinn í 10. sæti en Selfoss í því sjöunda. Selfyssingar voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik en gerðu úti um leikinn í þeim seinni og unnu að lokum sex marka sigur. Lokatölur 29-35. Liðin skiptust á að skora í upphafi en eftir 8 mínútur í stöðunni 4-4 gáfu Selfyssingar í og skoruðu næstu þrjú mörk. Ísak Gústafsson var sjóðandi heitur í upphafi leiks en eftir stundarfjórðung hafði hann skorað 6 mörk úr 6 skotum og var illviðráðanlegur. Þarna var KA búið að jafna leikinn í 10-10 en misstu gestina aftur aðeins fram úr sér og staðan í hálfleik 16-18 eftir að Gauti Gunnarsson skoraði síðasta mark hálfleiksins úr hægra horninu hjá KA. Selfyssingar mættu á fullu gasi inn í síðari hálfleik og skoruðu fyrstu þrjú mörkin og voru skyndilega komnir fimm mörkum yfir. Jón Þórarinn Þorsteinsson skipti við Vilius Rasimas í marki gestanna í hálfleik og áttu stórleik en hann endaði með 10 varða bolta sem gerir 43,5% markvörslu. Selfoss hélt KA fjórum til fimm mörkum frá sér lengi vel en þegar rúmar 10 mínútur lifðu leiks kom 7-1 kafli Selfoss í vil og þeir því komnir níu mörkum yfir, 25-34, þegar einungis fimm mínutur voru eftir. Sigurinn var því kominn í höfn nokkuð snemma og endaði leikurin með sex marka mun, 29-35. Annan leikinn í röð hrynur leikur KA í seinni hálfleik sem er áhyggjuefni en liðið er einungis þremur stigum frá fallsæti. Selfoss lyftir sér upp í fimmta sæti eins og er en Fram og Stjarnan sem eru tveimur stigum á eftir og eiga leik inni. Af hverju vann Selfoss? Selfoss var skrefinu á undan KA í fyrri hálfleik en munurinn einungis tvö mörk. Í seinni hálfleik gáfu gestirnir allt í botn og keyrðu yfir KA liðið sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Þá hjálpaði frábær innkoma Jóns Þórarins í markinu heldur betur til. Hverjir stóðu upp úr? Jón Þórarinn Þorsteinsson stóð vaktina í marki Selfoss í seinni hálfleik og varði 10 bolta sem gerir 43,5% markvörslu. Ísak Gústafsson og Atli Ævar Ingólfsson enduðu báðir með 7 mörk en vörn KA átti í miklu basli með þá báða. Jens Bragi Bergþórsson, kornungur línumaður KA, var mjög góður á línunni og skoraði 6 mörk úr 8 skotum en þarna er á ferðinni frábær línumaður til framtíðar ef rétt verður haldið á spöðunum. Gauti Gunnarsson skoraði 6 mörk fyrir KA og Dagur Gautason 5 mörk. Hvað gekk illa? Seinni hálfleikur hjá KA gekk einfaldlega mjög illa. Hvað gerist næst? KA mætir Stjörnunni í Garðabæ fimmtudaginn 2. mars kl. 19:30. Selfoss og ÍR mætast á Selfossi föstudaginn 3. mars kl. 19:30. Guðlaugur: Verðum að geta haldið haus Guðlaugur Arnarson, aðstoðarþjálfari KA, stýrði liðinu gegn Selfoss í dag í fjarverju Jónatans Magnússonar sem var dæmdur í eins leiks bann vegna ummæla sinna í garð dómara eftir leik KA og Aftureldingu í Powerade bikarnum á dögunum þar sem Afturelding vann eftir framlengingu. „Mér fannst við bara koma afspyrnu illa inn í seinni hálfleikinn þar sem við leyfum þeim að komast fimm til sex mörkum yfir bara á fyrstu fjórum mínútum í seinni hálfleik og það er bara agaleysi og hausleysi og bara vantaði sjálfstraust í okkur í seinni hálfleik sem að orsakar það”, sagði Guðlaugur strax eftir leik en Selfyssingar skoruðu fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik og komust fimm mörkum yfir. Þetta er annar leikurinn í röð þar sem leikur liðsins hrynur í seinni hálfleik en það sama gerðist gegn ÍR í síðustu umferð. Þetta hefur sést áður á tímabilinu hjá KA en Guðlaugur segist ekki hafa útskýringu á því hvers vegna þetta gerist. „Ef við hefðum skýringuna þá værum við væntanlega búnir að vera vinna því sérstaklega en ég er alveg sammála að þetta veldur áhyggjum og við ræðum það líka núna inni í klefa að við verðum að geta haldið haus og verið inni í skipulaginu og aganum og haft trú á því sem við erum að gera. Það er svolítil vöntun á því í dag.” KA menn hafa verið að horfa í það að komast í úrslitakeppnina sem efstu átta liðin taka þátt í. Nú er staðan svo að KA er þremur stigum frá fallsæti en fimm stigum frá úrslitakeppnissæti. Hvernig horfir þjálfarateymi KA í það allt saman? „Í allan vetur höfum við bara verið að horfa á það, og við erum með þannig hóp, að við horfum á hverja æfingu og hvern leik fyrir sig og viljum vera bæta okkur. Þetta er ofboðslega metnaðarfullur hópur sem vill ná árangri. Við erum í ákveðnum fasa þar sem við erum að byggja upp ákveðna hluti líka og við horfum á það þannig að þessi leikur fór eins og hann fór og það er æfing eftir helgi og leikur á fimmtudaginn þannig það er ljóst að við verðum að fara safna einhverjum stigum í kassann.” Jens Bragi Bergþórsson er einungis á sautjánda aldursári en hefur undanfarið fengið tækifærið á línunni hjá KA og staðið sig virkilega vel. Hann skoraði 6 mörk úr 8 skotum í dag og lét vel til sín taka. Jens er bara gríðarlega efnilegur línumaður og hefur verið að gera mjög góða hluti hérna sóknarlega og varnarlega með sínum aldri og verið að góða góða hluti í þriðja flokki og U-liðinu hjá okkur og er að koma núna inn út af vöntun, út af meiðslum og annað. Hann sýndi mikinn anda í dag og á hrós skilið; einn af þeim fáum sem eiga það í dag hjá okkur. Ég er ánægður með hans framlag en við þurfum bara að halda áfram. Er Jens ekki bara að vinna sig inn í byrjunarliðið með svona frammistöðu? „Þegar hann skilar svona frammistöðu þá eiga menn skilið að spila”, sagði Guðlaugur einfaldlega. Einar Rafn Eiðsson spilaði fyrri hálfleikinn í dag en kom einungis inn í þeim seinni til að taka víti. Hvernig er staðan á honum? „Staðan á honum er þannig að hann meiddist í pásunni hjá okkur í janúar og er ekki alveg nógu góður en kannski mér að kenna að hnjakkast of lengi á honum inn í leikinn og áttum sennilega að hreyfa það aðeins betur en hún er ekki nógu góð.” Þórir: Virkilega gott hrós á strákana Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss, var ánægður með sterkan sigur sinna manna fyrir norðan í dag þegar Selfoss vann KA með sex mörkum. „Ég er bara heilt yfir mjög sáttur. Við sýndum bara ákveðinn styrk í dag með því að mæta á erfiðan útivöll og með vel stemmda KA menn á móti okkur og náðum að halda þessum góða leik hjá okkur bara eiginlega allan tímann. Það komu einhverjir kaflar þar sem við hleyptum þeim nálægt okkur og var svo sem jafnt í fyrri hálfleik meira og minna en bara seinni hálfleikurinn frábær varnarlega og hvernig strákarnir sýndu í dag virkilega flotta vörn og sókn og markverðirnir fínir í dag.” Mikil orka var í Selfoss liðinu í upphafi síðari hálfleiks sem skilaði þremur fyrstu mörkunum og liðið leit aldrei til baka eftir það og komst mest 9 mörkum yfir. „Við einblíndum á það sem við vorum búnir að fara yfir og hvar við vildum sækja og varnarlega hvernig við vildum vinna þar. Við breyttum svo sem ekkert rosalega miklu. Það var aðallega ákefðin sóknarlega og varnarlega sem menn komu með út úr þessum hálfleik sem var frábær og virkilega gott hrós á strákana hvernig þeir spiluðu í dag.” Jón Þórarinn Þorsteinsson stóð pliktina í marki Selfoss í seinni hálfleik og varði 10 bolta sem gerir 43,5% markvörslu. „Þetta er bara frábær markmaður og duglegur, æfir vel, og er að uppskera bara það sem hann er búinn að vera gera síðastliðin ár og virkilega gaman fyrir hann og okkur að hann sé að taka bolta.” Selfoss lyftir sér upp fyrir Fram og Stjörnuna í fimmta sætið en þau eiga þó leik inni. Lítill munur er á milli liðanna í þriðja til sjöunda sæti og því ekki úr vegi að spurja hvort Selfoss stefni á að enda í einum af efstu fjóru sætunum til að fá heimaleikjarétt í úrslitakeppninni? „Við bara stefnum eins hátt og við komumst en við vitum það að það eru öll lið að berajst um þessa punkta sem eru í boði og við erum bara búna byrjaðir að hugsa um næsta leik sem er ÍR á föstudaginn og það verður enn einn erfiði leikurinn á móti góðu liði þannig þetta er bara barátta fram í síðasta leik”, sagði Þórir að lokum.
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26| Valskonur áfram eftir frábæra frammistöðu Handbolti
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26| Valskonur áfram eftir frábæra frammistöðu Handbolti