Fyrir leikinn í kvöld var Álaborg með tveggja stiga forskot á meistara GOG á toppi deildarinnar en Sönderjyske sat í tíunda sætinu.
Leikurinn í kvöld varð aldrei spennandi. Álaborg var komið í 9-1 forystu eftir rúmar tíu mínútna leik og þó Stjarnan hafi tapað fyrir ÍBV í Olís-deildinni í vikunni eftir að hafa verið í nákvæmlega sömu stöðu þá fóru leikmenn Álaborgar ekki svo illa að ráði sínu.
Álaborg leiddi 18-12 í hálfleik og Aron Pálmarsson þá kominn með þrjú mörk.
Í síðari hálfleiknum náði Álaborg mest fimmtán marka forskoti og vann að lokum mjög svo öruggan sigur, lokatölur 34-23.
Aron Pálmarsson endaði leikinn með þrjú mörk úr sex skotum auk þess að gefa þrjár stoðsendingar. Lukas Sandell var markahæstur hjá Álaborg með sjö mörk og Mads Hangaard skoraði sex.