Þetta er niðurstaða fundar tuttugu lífeyrissjóða sem eru stærstu eigendur skuldabréfa Íl-sjóðs. Í tilkynningu sem send var á fjölmiðla segir að kröfum sjóðanna um fullar efndir af hálfu ríkisins í umleitunum þess um mögulegt uppgjör hafi ekki verið komið til móts við.
„Íslenska ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs. Áætlun fjármálaráðherra um slitameðferð og uppgjör á skuldbindingum sjóðsins án tillits til vaxtagreiðslna í framtíðinni felur í sér skerðingu eignarréttinda sem brýtur í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir í tilkynningunni.
Að mati sjóðanna komu svör Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að ekki væri hægt að óska eftir samkomulagi um skerðingu eigna á óvart.
„Boðaðar ráðstafanir í tengslum við slit ÍL-sjóðs, sem miða að því að lækka verulega fjárhagslegar skuldbindingar íslenska ríkisins, með lagasetningu náist ekki samningar, leiða að óbreyttu til tugmilljarða króna tjóns lífeyrissjóðanna og þar með almennings í landinu í formi tapaðra lífeyrisréttinda. Við blasir að látið yrði reyna á allar slíkar aðgerðir fyrir dómstólum,“ segir í tilkynningunni.