Handbolti

Sigurður eftir slæmt tap ÍBV: „Smá eins og sprungin blaðra“

Kári Mímisson skrifar
Sigurður Bragason hefur verið hressari eftir leik.
Sigurður Bragason hefur verið hressari eftir leik. Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var bara vont og lélegt, smá eins og sprungin blaðra, eigum við ekki bara að orða þetta þannig. Vel gert hjá Fram. Þær eru með mikla orku og eiginlega bara slátruðu þessu frá upphafi,“ sagði Sigurður Bragason strax eftir tap ÍBV gegn Fram nú í dag. ÍBV sá aldrei til sólar í leiknum en Fram sigraði leikinn 28-19 og var með algjöra yfirburði frá fyrstu mínútunum.

En er þetta áhyggjuefni fyrir ÍBV að geta ekki boðið upp á betri frammistöðu svona rétt fyrir úrslitakeppnina?

„Nei alls ekki en auðvitað þurfum við að kveikja á okkur. Við erum líklega að fara að mæta Fram, svona tölfræðilega. Þetta er ekki áhyggjuefni. Ég er búinn að bíða eftir þessu tapi og gott að það gerist hér í dag, í leik sem skiptir ekki máli. Ég vildi samt vinna og ég var að reyna það en ég ætla bara að gefa stelpunum mínum það að andlega voru þær bara búnar á því.“

Lið ÍBV hafði ekki tapað síðan í október og hafa tryggt sér deildar og bikarmeistaratitilinn síðan þá. Setur þetta ekki meiri pressu á ykkur fyrir átökin í úrslitakeppninni?

„Ekkert meira en fyrir seasonið. Við höfum alltaf ætlað okkur að verða Íslandsmeistarar, bikarmeistarar og deildarmeistarar alveg eins og þessi fjögur bestu lið ætluðu sér að verða. Það eru tveir titlar búnir og við tókum þá báða. Það er engin pressa á okkur en við þurfum að rífa okkur upp. Við þurfum núna bara að gíra upp stemmninguna og í því fellst mögulega pressa.“

ÍBV fær núna smá pásu fyrir úrslitakeppnina. Hvað ætlar Sigurður og hans stelpur að gera í henni?

„Það er bara Tene, bara tvær vikur Tene.“ Segir Sigurður og glotti. 

„Nú gef ég eiginlega bara frí fram yfir páska og þær fá bara sitt lyftingarprógram á meðan. Það er búið að vera mikil spenna og þær þurfa bara smá frí líka og svo komum við saman eftir páska og þá förum við bara aftur á fullt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×