Innlent

Lög­reglu­maður kýldur í and­litið af ó­sáttum veg­faranda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti einnig umferðareftirliti í nótt.
Lögregla sinnti einnig umferðareftirliti í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til ásamt sjúkraliði þegar tilkynnt var um bráðaveikindi á veitingastað í miðborginni. Veikindin reyndust minniháttar en vegfarandi var ósáttur við viðveru lögreglu og brást við með því að kýla lögreglumann í andlitið.

Einstaklingurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa, að því er segir í tilkynningu lögreglu um verkefni næturinnar. Hann verður kærður fyrir að tálma lögreglu, beita opinberan starfsmann ofbeldi, segja hvorki til nafns né framvísa persónuskilríkjum og fyrir vörslu fíkniefna.

Í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi var lögregla kölluð til þegar ölvaður einstaklingur veittist að starfsmanni veitingahúss. Viðkomandi hlýddi ekki lögreglu þegar vísa átti honum á brott og var þá handtekinn og vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Í Kópavogi/Breiðholti varð lögreglumaður á frívakt vitni að fíkniefnaviðskiptum milli tveggja manna. Hann gerði vinnufélögum sínum viðvart, sem fundu fíkniefni á grunuðum sala.

Í umdæminu Grafarvogur, Mosfellsbær, Árbær var tilkynnt um tvær líkamsárásir í sitthvoru póstnúmerinu. Einn var handtekinn og vistaður í fangaklefa. 

Þá sinnti lögregla einnig umferðareftirliti og verða nokkrir kærðir fyrir hin ýmsu umferðarlagabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×