Umfjöllun og viðtöl: FH - Selfoss 30-29 | Óbærileg spenna í fyrsta leik Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 15. apríl 2023 22:10 Einar Bragi Aðalsteinsson var markahæstur í liði FH með sex mörk. vísir/diego FH tók forystuna í einvíginu við Selfoss í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta með sigri í fyrsta leik liðanna í kvöld, 30-29. Einar Sverrisson gat jafnað fyrir Selfyssinga úr vítakasti eftir að leiktíminn var runninn út en skaut í stöng. FH leiddi allan leikinn en Selfoss var aldrei langt undan. Gestirnir fengu ótal tækifæri til að jafna, meðal annars í lokasókn leiksins þar sem Einar fiskaði víti. Og það var kannski í takt við endalausar glataðar tilraunir Selfyssinga til að jafna að boltinn færi í stöng og FH-ingar fögnuðu sigri. Þessi lið mættust í frábæru einvígi í átta liða úrslitunum í fyrra og miðað við byrjunina á þessu hefur það alla burði til að vera það líka. Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði sex mörk fyrir FH í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni á ferlinum. Ásbjörn Friðriksson gerði fimm mörk og Birgir Már Birgisson og Jóhannes Berg Andrason fjögur hvor. Phil Döhler varði tólf skot (þrjátíu prósent). Hjá Selfossi báru tveir leikmenn af. Einar, sem skoraði átta mörk, og svo markvörðurinn Vilius Rasimas sem varði 22 skot, eða 45 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Hann var stærsta ástæðan fyrir því að Selfyssingar voru í námunda við FH-inga í hálfleik. FH-ingar töpuðu boltanum bara tvisvar sinnum í fyrri hálfleik en skotnýtingin var bara fimmtíu prósent sem skrifast á frábæra frammistöðu Rasimas. Í sóknarleik Selfyssinga bar Einar þyngstu byrðarnar en hann vantaði meiri hjálp hjá félögum sínum í útilínunni. Ísak Gústafsson náði sér engan veginn á strik og Ragnar Jóhannsson horfði ekki á markið. Ísak jafnaði í 13-13 með sínu eina marki í fyrri hálfleik en FH skoraði næstu tvö mörk og fór með tveggja marka forskot til búningsherbergja, 15-13. FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur, skoruðu fjögur af fyrstu sex mörkum hans og komust í 19-15. Selfyssingar gáfust ekki upp, þéttu vörnina og fundu leiðir í gegn vörn FH-inga og leikurinn varð aftur gríðarlega spennandi. En Selfossi var fyrirmunað að jafna. Gestirnir fengu ótal tækifæri til þess en þau fóru öll í súginn. Munurinn var alltaf 1-2 mörk en aldrei tókst Selfossi að komast yfir þá hindrun sem að jafna var. Guðmundur Hólmar Helgason átti erfitt uppdráttar í kvöld og hann fór með þrjár sóknir undir lokin. FH nýtti sér það, skoraði tvö mörk í röð og komst í 30-27 þegar þrjár mínútur voru eftir. Rasimas neitaði samt að játa sig sigraðan, varði þrjú skot í sömu sókninni og Einar minnkaði muninn í 30-28 úr víti. Rasimas varði svo frá Jóhannesi Berg í næstu sókn FH og Tryggvi Sigurberg Traustason hleypti mikilli spennu í leikinn þegar hann skoraði 29. mark Selfoss með frábæru skoti. Jóhannes Berg tapaði boltanum í kjölfarið og Selfoss fékk lokasóknina. Þórir Ólafsson, þjálfari liðsins, tók leikhlé þegar tólf sekúndur voru eftir. Að því loknu fiskaði Einar vítið sem hann setti svo í stöngina. FH slapp því með skrekkinn þótt sigur þeirra hafi heilt á litið verið sanngjarn. En Selfoss gaf ekkert eftir og gaf öllum þeim sem héldu að FH myndi vinna einvígið örugglega langt nef. Sigursteinn: Ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið rólegur Sigursteinn Arndal kvaðst stoltur af sínum mönnum.vísir/diego Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var enn í miðju umróti tilfinninganna þegar hann mætti í viðtal eftir sigur sinna manna á Selfossi í kvöld. „Akkúrat núna líður mér frábærlega að vinna en ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið rólegur,“ sagði Sigursteinn en eftir að leiktíminn var runninn út skaut Einar Sverrisson í stöng úr vítakasti þegar hann gat jafnað fyrir Selfoss. FH hafði verið þremur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir en slapp með skrekkinn. „Ég veit eiginlega ekki hvað gerðist. Það er þannig ólga inni í mér að ég næ ekki utan um það núna. Hefurðu ekki séð þetta milljón sinnum? Úrslitakeppnin, er hún ekki bara byrjuð?“ FH-ingar voru alltaf með frumkvæðið í leiknum en gekk illa að sigrast á Vilius Rasimas sem átti stórleik í marki Selfyssinga. „Hann er frábær markvörður og sérstaklega í fyrri hálfleik fórum við illa með góð færi. Við fórum yfir það í hálfleik. Þetta eru tvö frábær lið en við hefðum átt að klára þetta fyrr. En þetta er bara úrslitakeppnin. Þú þarft að vera klár í þetta,“ sagði Sigursteinn. En hvað var hann sáttastur með hjá sínu liði í kvöld? „Í rauninni bara að halda alltaf áfram, sama hvað. Við gerðum fullt af mistökum og það voru taugar. Ég er stoltur af mínu liði og mörgum ungum leikmönnum að standast þetta og klára þetta,“ svaraði Sigursteinn. Þórir: Þetta var stöngin út Þórir Ólafsson bar sig vel eftir leik.vísir/diego Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss, var yfirvegaður í viðtali eftir tapið nauma fyrir FH í kvöld. „Þetta var hörkuleikur. Við veittum þeim góða mótspyrnu. Við vorum svolítið að elta og fengum mörg tækifæri til að jafna en [Phil] Döhler varði vel hjá þeim. Þetta var stöngin út eins og í lokin. Við ætlum bara að gleyma þessum leik og einbeita okkur að næsta leik á þriðjudaginn,“ sagði Þórir. Selfyssingar fengu fjöldan allan af tækifærum til að jafna síðasta stundarfjórðunginn en þau fóru öll til spillis. „Það vantaði að höggva á einhvern hnút. Við fengum tækifæri til að jafna og koma þessu í framlengingu í lokin en því miður gekk það ekki,“ sagði Þórir. Hann vill laga varnarleik Selfoss fyrir næsta leik. „Við féllum aðeins of mikið í vörninni. Þeir spiluðu langar sóknir og við duttum aðeins niður á hælana og sex metrana og fengum á okkur ódýr mörk.“ Einar Sverrisson var allt í öllu í sóknarleik Selfyssinga en fékk ekki mikla hjálp frá samherjum sínum í útilínunni. „Það mæðir mikið á Einari enda með mikla reynslu og mikil skytta. Hann tók margar ákvarðanir en hinir bjuggu kannski til færi fyrir hann. Ég vil fá framlag frá öllum, krefst þess og við fáum það í næsta leik,“ sagði Þórir að lokum. Olís-deild karla FH UMF Selfoss
FH tók forystuna í einvíginu við Selfoss í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta með sigri í fyrsta leik liðanna í kvöld, 30-29. Einar Sverrisson gat jafnað fyrir Selfyssinga úr vítakasti eftir að leiktíminn var runninn út en skaut í stöng. FH leiddi allan leikinn en Selfoss var aldrei langt undan. Gestirnir fengu ótal tækifæri til að jafna, meðal annars í lokasókn leiksins þar sem Einar fiskaði víti. Og það var kannski í takt við endalausar glataðar tilraunir Selfyssinga til að jafna að boltinn færi í stöng og FH-ingar fögnuðu sigri. Þessi lið mættust í frábæru einvígi í átta liða úrslitunum í fyrra og miðað við byrjunina á þessu hefur það alla burði til að vera það líka. Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði sex mörk fyrir FH í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni á ferlinum. Ásbjörn Friðriksson gerði fimm mörk og Birgir Már Birgisson og Jóhannes Berg Andrason fjögur hvor. Phil Döhler varði tólf skot (þrjátíu prósent). Hjá Selfossi báru tveir leikmenn af. Einar, sem skoraði átta mörk, og svo markvörðurinn Vilius Rasimas sem varði 22 skot, eða 45 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Hann var stærsta ástæðan fyrir því að Selfyssingar voru í námunda við FH-inga í hálfleik. FH-ingar töpuðu boltanum bara tvisvar sinnum í fyrri hálfleik en skotnýtingin var bara fimmtíu prósent sem skrifast á frábæra frammistöðu Rasimas. Í sóknarleik Selfyssinga bar Einar þyngstu byrðarnar en hann vantaði meiri hjálp hjá félögum sínum í útilínunni. Ísak Gústafsson náði sér engan veginn á strik og Ragnar Jóhannsson horfði ekki á markið. Ísak jafnaði í 13-13 með sínu eina marki í fyrri hálfleik en FH skoraði næstu tvö mörk og fór með tveggja marka forskot til búningsherbergja, 15-13. FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur, skoruðu fjögur af fyrstu sex mörkum hans og komust í 19-15. Selfyssingar gáfust ekki upp, þéttu vörnina og fundu leiðir í gegn vörn FH-inga og leikurinn varð aftur gríðarlega spennandi. En Selfossi var fyrirmunað að jafna. Gestirnir fengu ótal tækifæri til þess en þau fóru öll í súginn. Munurinn var alltaf 1-2 mörk en aldrei tókst Selfossi að komast yfir þá hindrun sem að jafna var. Guðmundur Hólmar Helgason átti erfitt uppdráttar í kvöld og hann fór með þrjár sóknir undir lokin. FH nýtti sér það, skoraði tvö mörk í röð og komst í 30-27 þegar þrjár mínútur voru eftir. Rasimas neitaði samt að játa sig sigraðan, varði þrjú skot í sömu sókninni og Einar minnkaði muninn í 30-28 úr víti. Rasimas varði svo frá Jóhannesi Berg í næstu sókn FH og Tryggvi Sigurberg Traustason hleypti mikilli spennu í leikinn þegar hann skoraði 29. mark Selfoss með frábæru skoti. Jóhannes Berg tapaði boltanum í kjölfarið og Selfoss fékk lokasóknina. Þórir Ólafsson, þjálfari liðsins, tók leikhlé þegar tólf sekúndur voru eftir. Að því loknu fiskaði Einar vítið sem hann setti svo í stöngina. FH slapp því með skrekkinn þótt sigur þeirra hafi heilt á litið verið sanngjarn. En Selfoss gaf ekkert eftir og gaf öllum þeim sem héldu að FH myndi vinna einvígið örugglega langt nef. Sigursteinn: Ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið rólegur Sigursteinn Arndal kvaðst stoltur af sínum mönnum.vísir/diego Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var enn í miðju umróti tilfinninganna þegar hann mætti í viðtal eftir sigur sinna manna á Selfossi í kvöld. „Akkúrat núna líður mér frábærlega að vinna en ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið rólegur,“ sagði Sigursteinn en eftir að leiktíminn var runninn út skaut Einar Sverrisson í stöng úr vítakasti þegar hann gat jafnað fyrir Selfoss. FH hafði verið þremur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir en slapp með skrekkinn. „Ég veit eiginlega ekki hvað gerðist. Það er þannig ólga inni í mér að ég næ ekki utan um það núna. Hefurðu ekki séð þetta milljón sinnum? Úrslitakeppnin, er hún ekki bara byrjuð?“ FH-ingar voru alltaf með frumkvæðið í leiknum en gekk illa að sigrast á Vilius Rasimas sem átti stórleik í marki Selfyssinga. „Hann er frábær markvörður og sérstaklega í fyrri hálfleik fórum við illa með góð færi. Við fórum yfir það í hálfleik. Þetta eru tvö frábær lið en við hefðum átt að klára þetta fyrr. En þetta er bara úrslitakeppnin. Þú þarft að vera klár í þetta,“ sagði Sigursteinn. En hvað var hann sáttastur með hjá sínu liði í kvöld? „Í rauninni bara að halda alltaf áfram, sama hvað. Við gerðum fullt af mistökum og það voru taugar. Ég er stoltur af mínu liði og mörgum ungum leikmönnum að standast þetta og klára þetta,“ svaraði Sigursteinn. Þórir: Þetta var stöngin út Þórir Ólafsson bar sig vel eftir leik.vísir/diego Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss, var yfirvegaður í viðtali eftir tapið nauma fyrir FH í kvöld. „Þetta var hörkuleikur. Við veittum þeim góða mótspyrnu. Við vorum svolítið að elta og fengum mörg tækifæri til að jafna en [Phil] Döhler varði vel hjá þeim. Þetta var stöngin út eins og í lokin. Við ætlum bara að gleyma þessum leik og einbeita okkur að næsta leik á þriðjudaginn,“ sagði Þórir. Selfyssingar fengu fjöldan allan af tækifærum til að jafna síðasta stundarfjórðunginn en þau fóru öll til spillis. „Það vantaði að höggva á einhvern hnút. Við fengum tækifæri til að jafna og koma þessu í framlengingu í lokin en því miður gekk það ekki,“ sagði Þórir. Hann vill laga varnarleik Selfoss fyrir næsta leik. „Við féllum aðeins of mikið í vörninni. Þeir spiluðu langar sóknir og við duttum aðeins niður á hælana og sex metrana og fengum á okkur ódýr mörk.“ Einar Sverrisson var allt í öllu í sóknarleik Selfyssinga en fékk ekki mikla hjálp frá samherjum sínum í útilínunni. „Það mæðir mikið á Einari enda með mikla reynslu og mikil skytta. Hann tók margar ákvarðanir en hinir bjuggu kannski til færi fyrir hann. Ég vil fá framlag frá öllum, krefst þess og við fáum það í næsta leik,“ sagði Þórir að lokum.
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26 | Einn stærsti sigur íslensks kvennafélagsliðs Handbolti
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26 | Einn stærsti sigur íslensks kvennafélagsliðs Handbolti