Barton mun fara með hlutverk hinnar bandarísku Reece sem „sé ekki öll þar sem hún er séð“, líkt og framleiðendur þáttanna komast að orði.
Streymisveita Amazon keypti réttinn að þáttunum á síðasta ári eftir að framleiðslu þáttanna var hætt eftir 37 ára samfellda göngu. Það gerðist eftir að breska sjónvarpsstöðin Channel 5 tilkynnti að ekki væri til nægilegt fjármagn til að halda framleiðslunni áfram.
Tökur hófust að nýju í Melbourne í gær að því er segir í frétt Variety.
Barton segist mjög spennt fyrir því að taka þátt í næsta kafla þessara einstöku þátta. Hún segist mjög spennt að halda til Ástralíu – staðar sem hún þekki vel og elski.
Framleiðandinn Jason Herbison segir að persóna Barton verði óútreiknanleg og að aðdáendur þáttanna komi til með að elska hana.
Barton er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Marissa Cooper í unglingaþáttunum The OC sem framleiddir voru á árunum 2003 til 2006. Hún hefur einnig leikið í fjölda Hollywood-kvikmynda, meðal annars The Sixth Sense og Notting Hill.
Í lokaþætti Nágranna sem sýndur var á síðasta ári sneru margir af fyrri persónum aftur, meðal annars Kylie Minogue, Guy Pearce og Jason Donovan.
Margir gamlir leikarar úr þáttunum munu halda áfram nú þegar framleiðsla hefst á ný, meðal annars Rebekah Elmaloglou (Terese Willis), Tim Kano (Leo Tanaka), Georgie Stone (Mackenzie Hargreaves) og Annie Jones (Jane Harris). Þá munu góðkunningjar eins og Ian Smith (Harold Bishop), Melissa Bell (Lucy Robinson) og April Rose Pengilly (Chloe Brennan) fara með gestahlutverk í nýju þáttunum.