Handbolti

Strax byrjað að skipu­leggja næsta tíma­bil þó liðið sé í undan­úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexandra Líf mun spila á Ásvöllum á nýjan leik.
Alexandra Líf mun spila á Ásvöllum á nýjan leik. Haukar

Lið Hauka í Olís deild kvenna í handbolta hefur þegar hafið að safna liði fyrir komandi tímabil.

Alexandra Líf Arnarsdóttir og Inga Dís Jóhannsdóttir munu leika með Haukum á næstu leiktíð. Alexandra Líf kemur frá norska efstu deildarliðinu Fredrikstad en hún lék síðast með HK hér á landi.

Alexandra Líf þekkir vel til á Ásvöllum en hún lék með liðinu áður en hún færði sig yfir í Kópavoginn.

„Það verður gaman að sjá Alexöndru Líf aftur í Haukabúningnum en þar hittir hún gamla liðsfélaga á ný. Koma Alexöndru mun kláralega styrkja liðið fyrir næsta tímabil og hlökkum við til að sjá hana aftur á parketinu á Ásvöllum,“ segir í tilkynningu Hauka.

Inga Dís hefur leikið með HK allan sinn feril en hefur ákveðið að söðla um og ganga í raðir Hauka. Um er að ræða efnilegan leikmann sem ætti að styrkja lið Hauka til muna.

„Við hjá Haukum bindum miklar vonir við komu Ingu Dísar til félagsins og hlökkum til að sjá hana á vellinum næsta haust,“ segir í tilkynningu Hauka.

Haukar eru komnir í undanúrslit Olís deildar kvenna eftir sigur á Íslandsmeisturum Fram í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×