Fótbolti

PSG missteig sig í toppbaráttunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi og Kylian Mbappé máttu þola tap í dag.
Lionel Messi og Kylian Mbappé máttu þola tap í dag. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Paris Saint-Germain mátti þola 1-3 tap er liðið tók á móti Lorient í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Það voru gestirnir í Lorient sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Enzo Le Fee kom boltanum í netið strax á 15. mínútu leiksins.

Heimamenn komu sér svo sjálfir í vesen fimm mínútum síðar þegar Achraf Hakimi fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Parísarliðið þurfti því að leika seinustu 70 mínútur leiksins manni færri, en þrátt fyrir það jafnaði Kylian Mbappé metin fyrir PSG á 29. mínútu.

Gestirnir nýttu sér þó liðsmuninn stuttu fyrir hálfleik og Darlin Yongwa sá til þess að Lorient fór með forystu inn í hálfleikshléið.

Bamba Dieng hélt svo að hann hefði skorað þriðja mark Lorient á 86. mínútu, en eftir skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af vegna ragnstöðu. Dieng lét það þó ekki á sig fá og skoraði löglegt mark þremur mínútum síðar og gulltryggði um leið 1-3 sigur gestanna.

PSG trónir enn á toppi frönsku deildarinnar með 75 stig eftir 33 leiki, átta stigum meira en Marseille sem á leik til góða. Lorient situr hins vegar í tíunda sæti með 48 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×