Selfoss var í Olís-deildinni í vetur en lenti þar í næst neðsta sæti. ÍR varð í 2. sæti í Gril66-deildinni og því mætast liðin í umspili um sæti í efstu deild á næsta ári.
ÍR kom nokkuð á óvart með því að vinna fyrstu tvo leikina í einvíginu en Selfoss svaraði með stórsigri í þriðja leiknum. Liðin mættust síðan í Breiðholtinu í kvöld og með sigri myndi ÍR tryggja sér sæti í efstu deild.
Það var hins vegar aldrei spurning hvernig leikurinn í dag færi. Selfoss komst 9-2 í upphafi leiks og leiddi 17-8 í hálfleik. Í síðari hálfleik hélst þessi munur og Selfoss með mikla yfirburði.
Lokatölur í kvöld 31-22 og Selfoss nær því að knýja fram oddaleik á heimavelli á miðvikudag.
Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst hjá Selfossi með 9 mörk og Roberta Stropé kom næst með 5 mörk. Cornelia Hermansson varði 15 skot í markinu. Hjá ÍR voru þær Karen Tinna Demian og Matthildur Lilja Jónsdóttir markahæstar með 5 mörk hvor og Hildur Öder Einarsdóttir varði 9 skot í markinu.