Liðin mætast í fimmta og síðasta sinn í kvöld klukkan 18, í veglegri útsendingu á Stöð 2 Sport.
Miðað við leikina til þessa má búast við mikilli spennu en tveir leikjanna hafa farið í framlengingu og í síðasta leik í Eyjum skoraði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sigurmarkið á síðustu sekúndu eftir að Marta Wawrzynkowska hafði varið víti Elínar Klöru Þorkelsdóttur.
Haukar enduðu í 5. sæti Olís-deildarinnar en hafa blómstrað í úrslitakeppninni, undir stjórn Díönu sem varð aðalþjálfari liðsins fyrir tveimur mánuðum þegar Ragnar Hermannsson hætti.

„Ég tak hatt minn ofan fyrir Haukum. Þetta er allt annað lið en í upphafi móts. Þetta er það lið sem hefur vaxið hvað mest í vetur og stórt hrós á Díönu sem tekur við þeim seint í vetur. Það er frábært að sjá þessa orku hjá þeim,“ segir Sigurður, hrifinn af því sem Díana hefur gert með Haukaliðið:
„Það hefur nú verið kallað eftir kvennaþjálfurum og þetta er flott hjá henni. Maður hefur ekki séð kvennaþjálfara koma svona flott inn síðan að Hrafnhildur Skúladóttir kom inn í þetta. Það hafa stelpur þarna vaxið gífurlega og þetta er bara alvöru lið, enda slærðu ekki öðruvísi út Fram 2-0 og kemur einvígi við deildar- og bikarmeistarana í oddaleik. Þær eiga allt gott skilið,“ segir Sigurður.

„Fullt hús og öllu til tjaldað“
Þrátt fyrir að hafa hrifist af mótherjum sínum er Sigurður sannfærður um að deildar- og bikarmeistararnir hans vinni í kvöld og komist í úrslitaeinvígið við Val:
„Ég er bara þar. Ég hef fulla trú á að við vinnum í kvöld og nýtum okkur heimavöllinn. Ég hef fundið það á fundum og æfingum að stelpurnar eru þarna líka. Við ætlum að fara í þennan leik til að sigra en verðum að vera gjörsamlega „on it“. Við verðum það, með okkar fólki. Það verður fullt hús og öllu til tjaldað.“
Oddaleikur ÍBV og Hauka hefst klukkan 18. Leikurinn er sýndur í veglegri útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 17.45.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.