Um var að ræða fyrsta leik liðanna í einvígi þeirra um að komast í úrslitaeinvígi dönsku deildarinnar. Guðmundur Guðmundsson hefur gert góða hluti með lið Frederecia sem nokkuð óvænt eru komnir í undanúrslitin en flestir búast þó við að stórlið Álaborgar fari áfram og mæti GOG í úrslitum.
Álaborg virtist ætla að kafsigla lærisveina Guðmundar í upphafi leiks í dag. Liðið komst í 5-0 eftir fimm mínútna leik en gestirnir vöknuðu hægt og rólega og voru búnir að minnka muninn í eitt mark þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður.
Eftir það náði lið Álaborgar hins vegar mest sex marka forskoti í fyrri hálfleiknum og leiddi 16-11 að honum loknum.
Í síðari hálfleik náði lið Frederecia í nokkur skipti að minnka muninn í tvö mörk og Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði sitt eina mark í leiknum þegar hann minnkaði muninn í þrjú mörk í stöðunni 25-22.
Þá voru fjórtán mínútur eftir en það mark reyndist hins vegar síðasta mark Fredericia í leiknum. Þeir skoruðu ekki í tæpar fjórtán mínútur og Álaborg gekk frá leiknum. Lokatölur 31-22 og níu marka sigur Álaborgar staðreynd.
Aron Pálmarsson skoraði eitt mark fyrir Álaborg í dag og gaf tvær stoðsendingar. Einar Þorsteinn skoraði sömuleiðis eitt mark fyrir Frederecia auk þess að gefa þrjár stoðsendingar. Liðin mætast á nýjan leik í Frederecia á miðvikudaginn.