Fótbolti

Hefur engar áhyggjur af framtíð Salah hjá Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp hefur engar áhyggjur af framtíð Salah hjá Liverpool.
Jürgen Klopp hefur engar áhyggjur af framtíð Salah hjá Liverpool. Andrew Powell/Liverpool FC via Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist ekki hafa neinar áhyggjur af framtíð Mohamed Salah hjá félaginu.

Eftir 4-1 sigur Manchester United gegn Chelsea síðastliðinn fimmtudag var ljóst að Liverpool á ekki möguleika á að vinna sér inn sæti í Meistaradeild Evrópu. Salah birti þá færslu eftir leikinn þar sem hann segist niðurbrotinn og að það sé algjört lágmark að Liverpool endi í Meistaradeildarsæti.

Nú er hins vegar ljóst að sama hvað gerist í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á morgun mun Liverpool hafna í fimmta sæti og fer því í Evrópudeildina á næsta tímabili.

„Mo elskar að vera hérna og hann var hluti af þessu liði,“ sagði Klopp er hann var spurður út í framtíð Salah á blaðamannafundi í gær.

„Hann baðst afsökunar á því sem við gerðum á tímabilinu. Hann baðst ekki afsökunar á því sem hinir gæjarnir í liðinu gerðu.“

„Ég hef engar áhyggjur. Ég las það sem hann sagði á Twitter, en ég gat ekki lesið neitt í þá átt að hann vildi fara. Ef einhver leikmaður kæmi til mín og myndi segja að hann þyrfti að fara frá félaginu af því að við komumst ekki í Meistaradeildina þá myndi ég keyra hann í annað félag sjálfur,“ bætti Klopp við.

Salah gekk í raðir Liverpool árið 2017 og hefur síðan þá leikið 217 deildarleiki fyrir félagið og skorað í þeim 137 mörk. Hann skrifaði undir nýjan þriggja ára samning við félagið síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×