Fótbolti

Þögull sem gröfin í skugga þrá­látra sögu­sagna

Aron Guðmundsson skrifar
Ange Postecoglou með skoska bikarmeistaratitilinn í höndunum
Ange Postecoglou með skoska bikarmeistaratitilinn í höndunum Vísir/Getty

Ange Postecoglou, knatt­spyrnu­stjóri skoska liðsins Celtic sem í gær tryggði sér þrennuna í Skot­landi, var þögull sem gröfin er hann var spurður út í fram­tíð sína hjá fé­laginu. Postecoglou er í­trekað orðaður við stjóra­stöðuna hjá Totten­ham.

Sigur Celtic á Inver­ness í úr­slita­leik skoska bikarsins sá til þess að fé­lagið gull­tryggði sér þrennuna í Skot­landi og er nú hand­hafi þriggja stærstu titla landsins.

Árangri fylgir um­tal og undir stjórn Postelcoglou hefur Celtic enn á ný gert sig gildandi í skoskri knatt­spyrnu.

Það hefur vakið at­hygli hjá for­ráða­mönnum enska úr­vals­deildar­fé­lagsins Totten­ham sem er í stjóra­leit eftir mikil von­brigði á ný­af­stöðnu tíma­bili.

Margir bjuggust við því að Postecoglou myndi tjá sig um fram­tíð sína eftir loka­leik tíma­bilsins í dag en hann gaf lítið upp.

„Ég verð­skulda það að njóta þessarar stundar núna líkt og allir aðrir hjá fé­laginu. Ég hef lagt hart að mér til þess að ná þessu,“ sagði Postecoglou í við­tali við BBC eftir að bikar­meistara­titilinn var í höfn hjá Celtic.

„Ég skulda vinum mínum og fjöl­skyldu það að njóta þessarar stundar. Ég skil af hverju þú ert að spyrja mig að þessu en frá mínu sjónar­horni verð­skulda ég það að njóta stundarinnar.“

Sá tíma­punktur muni koma að spurningum um fram­tíð hans verði svarað.

„Við höfum ritað okkur á spjöld sögunnar og ég ætla ekki að láta aðra hluti draga at­hygli mína frá þeirri stað­reynd.“

Postecocglou kom sem fremur lítt þekktur þjálfari til Skot­lands er hann tók við stjóra­stöðunni hjá Celtic árið 2021.

Hann er fæddur í Grikk­landi en alinn upp í Ástralíu og hefur þjálfað lið í báðum þessum löndum en auk þess var hann lands­liðs­þjálfari Ástralíu á árunum 2013-2017 og nú síðast þjálfari Yokohama í Japan.

Undir stjórn Postecoglou hefur Celtic í tví­gang orðið skoskur meistari tvö tíma­bil í röð og það sama gildir um árangur liðsins í skoska deildar­bikarnum.

Þá varð liðið í dag skoskur bikar­meistari í fyrsta skipti undir stjórn Postacoglou.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×