Gylfi hefur ekki spilað fótbolta frá því að hann var handtekinn sumarið 2021, grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi. Hann er laus allra mála eftir að lögregla í Manchester lýsti því yfir í apríl að ekki væri tilefni til ákæru.
Hareide tók við sem landsliðsþjálfari sama dag og yfirlýsing lögreglunnar barst. Hann ræddi fljótlega eftir það við Gylfa en talaði ekkert við hann í aðdraganda þess að Norðmaðurinn tilkynnti í dag sinn fyrsta landsliðshóp, fyrir leiki við Slóvakíu og Portúgal í undankeppni EM.
En telur hann að Gylfi muni snúa aftur í landsliðið síðar?
„Ég get bara vonað. Ég veit ekki. Ég hef ekki talað við hann undanfarið, bara síðast þegar ég var á Íslandi. Það var gott spjall. Vonandi komum við honum [Gylfa] aftur út á völlinn, með alla sína reynslu og hæfileika. Hann er sennilega einn hæfileikaríkasti leikmaður sem Ísland hefur átt,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í dag, og hélt áfram:
„Við þurfum á öllum að halda. Þessir 25 menn sem ég valdi eru góðir leikmenn en við þurfum að stækka hópinn af góðum leikmönnum enn meira. Það eru Íslendingar víða á meginlandinu að spila og vonandi þróast þeir áfram, sem og menn úr U21- og U19-landsliðinu sem fær núna góða reynslu af því að spila á EM.
Íslenskur fótbolti mun þróast og það er mikilvægt. Mikilvægast er að vinna leiki en þar á eftir er mikilvægast að fá fleiri leikmenn til að velja úr. Það er munurinn á Íslandi og mörgum öðrum þjóðum sem hafa fleiri leikmenn í boði. En allt er mögulegt eins og Ísland hefur sýnt, og af hverju ekki að gera það aftur?“ sagði Hareide.
Gylfi, sem verður 34 ára í september, á að baki 78 A-landsleiki. Hann skoraði í þeim 25 mörk og er einu marki frá markametinu sem Eiður Smári Guðjohnsen og Kolbeinn Sigþórsson deila.