Grænland tryggði sér HM-farseðilinn fyrir framan troðfulla höll í Nuuk í gær með því að vinna sigur gegn Kanada í spennuleik, 17-15.
Guðni deildi myndbandi á Twitter af lokaandartökum leiksins þar sem lýsendur misstu sig gjörsamlega í sigurvímu þegar Grænland skoraði lokamark leiksins og tryggði sér endanlega sigur.
Big congrats to Greenland on their 17-15 victory against Canada in Nuuk, securing a place in the 2023 IHF Women's World Championships in handball. Those genuine screams of joy make it impossible not to cheer for #Greenland Til hamingju! Pilluaritsi! pic.twitter.com/aBIZdvlzeJ
— President of Iceland (@PresidentISL) June 11, 2023
„Miklar hamingjuóskir til Grænlands með 17-15 sigurinn gegn Kanada í Nuuk, sem tryggði því sæti á HM kvenna í handbolta 2023. Þessi einlægu gleðióp gera það ómögulegt að fagna ekki Grænlandi. Til hamingju! PIlluaritsi!“ skrifaði Guðni á Twitter í gærkvöld. Ekki er ljóst hver viðbrögð eiginkonu hans, Elizu Reid sem er frá Kanada, voru.
Ivalu Bjerge var markahæst Grænlands með 7 mörk og Josefine Gadgaard skoraði 6.
Þetta verður í annað sinn í sögunni sem að Grænland spilar á HM kvenna í handbolta en liðið var í fyrsta sinn með á HM 2001 og endaði þá í 24. og neðsta sæti.
Svo gæti farið að Ísland verði einnig með á HM, þrátt fyrir tapið gegn Ungverjalandi í umspili um sæti á mótinu. HSÍ sótti nefnilega um að fá annað af tveimur boðssætum sem alþjóða handknattleikssambandið heldur enn lausum.
Búast má við ákvörðun á næstunni, eða í síðasta lagi í júlí, um það hvaða tvær þjóðir fá síðustu sætin á HM.
Heimsmeistaramótið fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, frá 29. nóvember til 17. desember.