Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari Vísis smellti meðfylgjandi myndum af hópnum sem nú bíður spenntur við hótelið, þegar innan við þrjár klukkustundir eru þar til að flautað verður til leiks Íslands og Portúgals á Laugardalsvelli.
Þrátt fyrir að leiðin frá Grand Hótel á Laugardalsvöll sé örstutt, eða um 700 metrar, þá mun portúgalska liðið ferðast á milli staða í rútu, í lögreglufylgd, inn fyrir girðinguna á Laugardalsvelli. Það er því ekki nema að Cristiano Ronaldo, Bruno Fernandes, Diogo Jota og félagar í portúgalska liðinu kjósi það sérstaklega, sem að aðdáendurnir fá að komast í tæri við þá.

Uppselt varð á leikinn um leið og miðasala hófst, fyrr í þessum mánuði, og hefur síminn hjá KSÍ vart stoppað vegna fólks í leit að miðum sem einfaldlega eru ekki í boði.
Stuðningsmenn Íslands eru hvattir til að mæta snemma á leikinn til að forðast biðraðir. Stuðningsmannasvæðið við Laugardalsvöll opnaði klukkan 15 og leikurinn sjálfur hefst klukkan 18.45.


Leikur Íslands og Portúgals hefst klukkan 18:45 á Laugardalsvelli og verður ítarlega fjallað um hann á Vísi í dag og í kvöld.