Maddison var á óskalista bæði Tottenham og Newcastle, en í gær var greint frá því hér á Vísi að leikmaðurinn hafi náð samkomulagi við Lundúnaliðið. Nú hafa félögin tvö, Tottenham og Leicester, komist að samkomuagi um kaupverð og Tottenham greiðir 40 milljónir punda fyrir leikmanninn sem samsvarar um 6,9 milljörðum króna.
Hinir ýmsu miðlar greina nú frá því að Maddison sé svo gott sem genginn í raðir Tottenham og að leikmaðurinn far í læknisskoðun í dag.
Hinn 26 ára gamli Maddison hefur verið á mála hjá Leicester síðan árið 2018 og skorað 43 mörk í 163 deildarleikjum fyrir félagið og lagt upp önnur 34 fyrir liðsfélaga sína. Hann hefur verið eftirsóttur biti undanfarna félagsskiptaglugga, þó sá áhugi hafi þó minnkað að einhverju leyti.
Tottenham hefur verið í leit að skapandi miðjumanni frá því að Christian Eriksen yfirgaf félagið árið 2020 og spurning hvort Maddison sé leikmaðurinn sem fyllir í skarðið.