Handbolti

Ævintýri Færeyinga á HM endaði snögglega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elias Ellefsen á Skipagötu átti stórleik og bjó til tuttugu mörk en það var ekki nóg fyrir færeyska landsliðið.
Elias Ellefsen á Skipagötu átti stórleik og bjó til tuttugu mörk en það var ekki nóg fyrir færeyska landsliðið. Getty/Frank Molter

Sigurganga Færeyja á heimsmeistaramóti 21 árs og yngri í handbolta endaði snögglega með tapi á móti Serbíu í átta liða úrslitum keppninnar í dag.

Serbar unnu leikinn með þriggja marka mun, 30-27, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 17-12.

Serbneska liðið skoraði tvö fyrstu mörk leiksins og var komið fimm mörkum yfir, 14-9, eftir tuttugu mínútna leik.

Leikurinn fór síðan endalega frá Færeyingum þegar Serbar skoruðu þrjú fyrstu mörk seinni hálfleiksins og komust fyrir vikið átta mörkum yfir, 20-12.

Færeyingar náðu muninum niður í tvö mörk á lokakaflanum en komust ekki nær.

Færeyska liðið hafði unnið marga stóra sigra á mótinu og voru til alls líklegir en verða nú að sætta sig að spila um fimmta til áttunda sætið.

Elias Ellefsen á Skipagötu átti enn einn stórleikinn á mótinu en hann var með 9 mörk og 11 stoðsendingar. Það dugði þó ekki til. Óli Mittun skoraði fimm mörk og yngri bróðir Elíasar, Roi Ellefsen á Skipagötu skoraði fjögur mörk.

Milos Kos og Bosko Stanisavljevic voru markahæstir hjá Serbíu með sjö mörk hvor.

Serbía mætir sigurvegaranum úr leik Þýskalands og Danmerkur í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×