Handbolti

Danir höfðu betur gegn litla bróður

Smári Jökull Jónsson skrifar
Danir unnu sigur á Færeyingum í dag.
Danir unnu sigur á Færeyingum í dag. IHF

Danmörk lagði Færeyjar í leik þjóðanna um sæti 5-8 á heimsmeistaramóti U21-árs liða í handknattleik. Danir spila því um 5. sæti á morgun en Færeyingar um 7. sæti.

Íslendingar spila í dag í undanúrslitum heimsmeistaramóts U21-árs landsliða í handknattleik en leikur liðsins gegn Ungverjum hefst klukkan 13:30 í Berlín.

Í morgun mættust lið Dana og Færeyja í keppni um sæti 5-8 en liðin töpuðu í 8-liða úrslitum á fimmtudag, Færeyingar gegn Serbum og Danir gegn Þjóðverjum. 

Fyrrum landsliðsmaðurinn og verðandi aðstoðarþjálfari íslenska A-landsliðsins, Arnór Atlason, er þjálfari danska liðsins og hann stýrði liðinu til sigurs gegn sterku liði Færeyinga sem margir höfðu trú á að gætu farið alla leið í mótinu.

Danir voru 13-10 yfir af loknum fyrri hálfleiknum vann danska liðið 26-23 sigur en Færeyingum tókst aldrei að jafna metin í síðari hálfleiknum. Það verða því Danir sem leika um 5. sætið á heimsmeistaramótinu á morgun en Færeyingar um 7. sæti. Það kemur í ljós á eftir hverjir andstæðingarnir verða þegar lið Króatíu og Portúgal mætast.

Julius Morch-Rasmussen og Thomas Sommer Arnoldsen voru markahæstir í liði Dana með 5 mörk hvor en Ísak Vedelsböl, Elias Ellefsen A Skipagotu og Bjarni í Selvindi skoruðu allir 5 mörk fyrir færeyska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×