Hansen er talinn einn ef betri handboltamönnum heims undanfarinn áratug eða svo. Hann spilaði lengi vel með París-Saint Germain í Frakklandi en sneri aftur í raðir Álaborgar á síðasta ári. Varð Hansen níu sinnum Frakklandsmeistari með PSG og fimm sinnum bikarmeistari.
Dvöl hans í Frakklandi endaði hins vegar vægast sagt illa þar sem hann varð alvarlega veikur snemma árs 2022. Fékk hann blóðtappa í lungun og var frá keppni í dágóða stund.
Hann byrjaði af krafti hjá Álaborg en snemma á þessu ári var ákveðið að hann myndi fara í veikindaleyfi. Var ákvörðunin tekin í samráði við nánustu fjölskyldu leikmannsins, lækna og félagið sjálft.
Í dag staðfesti Jan Larsen, framkvæmdastjóri Álaborgar, í viðtali við Extra Bladet að Hansen myndi snúa aftur til æfinga þegar liðið hefur undirbúning fyrir komandi á tímabil. Styrkir það lið Álaborgar til muna sem hefur sótt dönsku landsliðsmennina Niklas Landin og Simon Hald í von um að vinna allt sem hægt er að vinna innanlands sem utan á komandi leiktíð.
Á ferli sínum hefur Hansen þrívegis verið valinn besti leikmaður í heimi að mati IHF, 2011, 2015 og 2018. Hann hefur þrívegis verið valinn verðmætasti leikmaður HM í handbolta, 2013, 2019 og 2021. Þá hefur hann orðið heimsmeistari þrívegis, 2019, 2021 og 2023. Evrópumeistari árið 2012, og Ólympíumeistari árið 2016.