TMZ og People greina frá því að hin 37 ára Olsen og hinn 34 ára Eisner hafi eignast son fyrir nokkrum mánuðum í New York og að hann hafi fengið nafnið Otto.
Þau Olsen og Eisner gengu í hjónaband í desember 2022 en samband þeirra er sagt hafa hafist haustið 2017.
Tvíburasysturnar Ashley og Mary-Kate Olsen skiptust á að fara með hlutverk hinnar ungu Michelle Tanner í gamanþáttunum Full House sem framleiddir voru á árunum 1987 til 1995. Á fullorðinsárunum hafa þær hins vegar gert sig gildandi í tískuheiminum og þróað sitt eigið vörumerki.
Systurnar hafa báðar sagt frá því í viðtölum að þær reyni eftir fremsta megni að halda einkalífi sínu utan við kastljós fjölmiðlanna.
Eisner er listamaður og sonur skartgripahönnuðarins Lisu Eisner.