Þegar Spánverjar fengu afhent gullverðlaun sín, eftir sigur í úrslitaleiknum gegn Englendingum í gær, ákvað Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, að taka utan um andlit Hermoso og kyssa hana á munninn.
Forsetinn hefur fengið á baukinn á samfélagsmiðlum enda fólk almennt á því að gríðarlega óviðeigandi hegðun hafi verið að ræða.
„Eh … já, ég naut þess engan veginn,“ sagði Hermoso þegar hún var spurð út í atvikið í viðtali skömmu eftir að heimsmeistaratitillinn fór á loft.
„Eigum í góðu sambandi“
Nú hefur Hermoso tjáð sig á nýjan leik um kossinn fræga og vill hún ekki gera mikið úr honum, forseti spænska knattspyrnusambandsins hafi með kossinum aðeins verið að sýna ástúð.
„Þetta var bara spontant atvik sökum þeirrrar gríðarlegu ánægju sem fylgir því að vinna heimsmeistaratitilinn,“ segir Hermoso í yfirlýsingu sem AFP fréttaveitunni barst frá spænska knattspyrnusambandinu.
„Við forsetinn eigum í góðu sambandi. Hegðun hans, gagnvart okkur öllum, hefur verið framúrskarandi. Þetta var bara hans leið til þess að sýna ástúð og þakklæti.“
Hún og aðrir leikmenn spænska landsliðsins ætli nú að einbeita sér að því að fagna heimsmeistaratitlinum.
„Við ætlum ekki að láta draga athygli okkar frá því sem er mikilvægast á þessari stundu,“ segir Hermoso, nýkrýndur heimsmeistari með spænska landsliðinu í fótbolta.