Viðskipti innlent

Reitir högnuðust um tæpa fimm milljarða

Árni Sæberg skrifar
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita fasteignafélags hf..
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita fasteignafélags hf.. Stöð 2/Egill

Fasteignafélagið Reitir hagnaðist um 4.908 milljónir króna á fyrri helmingi ársins. Eigið fé félagsins við lok annars ársfjóðungs nam ríflega sextíu milljörðum króna.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins, sem birt var í gær. Þar kemur meðal annars fram að tekjur félagsins hafi verið 7.351 milljón króna, matsbreyting fjárfestingaeigna jákvæð um 10. 046 milljónir, og rekstrarhagnaður eftir matsbreytingu 14.954 milljónir.

Þá segir að heildareignir Reita nemi 190.957 milljón króna og eigið fé 60.370 milljónir. Eiginfjárhlutfall er 31,6 prósent og skuldsetningarhlutfall 59,5 prósent.

Hækka horfur

Í tilkynningu á vef Reita er haft eftir Guðjóni Auðunssyni, forstjóra félagsins, að reksturinn hafi gengið vel.

„Rekstrarhagnaður óx lítillega umfram verðlag og góður gangur hefur verið í útleigu. Stórum framkvæmdaverkefnum á vegum félagsins miðar vel en á fyrri hluta árs námu eignfærðar framkvæmdir 2,9 milljörðum króna. Stærstu verkefnin undanfarin misseri felast í stækkun Klíníkurinnar í Ármúla og vöruhúss Aðfanga við Skútuvog. Endurbætur og breytingar í Holtagörðum ganga samkvæmt áætlun, þar opnaði Bónus nýja verslun í júlí og þrjú ný s.k. premium outlet koma til með að opna þar í haust,“ er haft eftir honum.

Þá segir að vegna góðrar afkomu á fyrstu sex mánuðum ársins hækki félagið horfur um tekjur og rekstrarhagnað á árinu um hundrað milljónir króna. Nú sé gert ráð fyrir að tekjur ársins verði á bilinu 14.950 til 15.150 milljónir og að NOI [rekstrarhagnaður] ársins verði á bilinu 10.200 til 10.400 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×