Greenwood, sem á aðeins að baki einn A-landsleik fyrir England, er að koma atvinnumannaferlinum aftur af stað í spænsku úrvalsdeildinni með Getafe á láni frá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United.
Greenwood var handtekinn þann 30. janúar 2022 og ákærður fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar. Mál hans var nýlega fellt niður vegna ónægra sönnunargagna og leikmaðurinn fór á láni frá Manchester United til Getafe í von um að endurvekja knattspyrnuferilinn.
Óvissa er uppi um það hvort Greenwood muni yfir höfuð leika á nýjan leik fyrir enska landsliðið en tenging uppruna hans við Jamaíka gerir honum kleift, ef vilji hans stendur til þess, að spila fyrir jamaíska landsliðið.
Íslendingurinn Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari Jamaíka og hann myndi bjóða Greenwood velkominn í sitt lið.
„Við viljum hafa þá bestu í okkar liði. Ef hann kemst í sitt gamla form, á sitt gamla stig, þá myndi hann að sjálfsögðu geta hjálpað Jamaíka,“ lét Heimir hafa eftir sér.
Það er ekki nýtt af nálinni að enskir leikmenn, með uppruna sem rekja má til Jamaíka, geri sig gjaldgenga með landsliði Jamaíka. Leikmenn á borð við Ethan Pinnock, Demarai Gray og Michail Antonio eru dæmi um leikmenn sem hafa gert það nýlega.