Siggi Raggi lét af störfum sem þjálfari Bestu deildar liðs Keflavíkur á síðasta tímabili og nú leitar hann að stað til þess að hefja næsta kafla á sínum þjálfaraferli.
Hvernig er að vera í þessari stöðu?
„Þetta er hluti af því að starfa sem þjálfari,“ svarar Siggi Raggi. „Knattspyrnusamband Evrópu var að birta niðurstöðu úr rannsókn sinni og þar sést svart á hvítu að meðal starfstími þjálfara í efstu deildum Evrópu er 1,3 ár. Það lenda meira og minna allir þjálfarar einhvern tímann í því á ferlinum að vera án starfs. Stundum er það út af lélegum árangri en stundum vegna þess að stjórnir félaganna hafa ákveðið að gera breytingar. Það eru afskaplega fáir þjálfarar sem ná því að starfa lengi hjá sama félaginu.“
Það sé náttúrulega mikill galli við starfið.
„Því á sama tíma eru félög oft að tala um að vilja fara í uppbyggingu. En svo eru þjálfarar oft látnir fara innan skamms tíma. Þetta er eitthvað sem maður verður að geta tekist á við sem þjálfari. Maður verður að vera sveigjanlegur í þessu starfi. Draumastarfið þitt er ekki alltaf á lausu. Þá þarftu að vera tilbúinn í að flytja erlendis, starfa úti á landsbyggðinni eða fara í deild neðar og skoða hvað sem losnar. Eða vera tilbúinn í að vera atvinnulaus í lengri tíma og finna þér þá eitthvað annað.“
Þjálfarastarfið hafi breyst mjög mikið í gegnum tíðina.
„Aðalþjálfarastarfið er orðið gríðarlega viðamikið starf. Hérna í gamla daga var boltapoka og keilum hent í þig eftir að þú hafðir skrifað undir þjálfarasamning. Svo er þér bara óskað góðs gengis. Starfið er núna orðið þannig að þú ert að stýra fullt af fólki í teymi. Þú þarft bæði þekkingu og reynslu til þess.
Liðin eru komin með aðstoðar-, markmanns- og styrktarþjálfara. Stundum er þetta fólk í fullu starfi líka. Þá eru félögin einnig farin að spá meira í leikmannamálunum sínum. Það eru fengnir inn leikgreinendur og tól tengd því. Þá koma inn í þetta margvíslegir þættir tengdir samskiptum við hina og þessa.
Þetta er orðið gríðarlega viðamikið starf og erfitt að gera það í dag án þess að vera í fullu starfi. Ef þú ætlar að gera þetta af einhverju viti og ná árangri.“