Gylfi bæði jafnaði og bætti metið með því að skora tvisvar í 4-0 sigri á Liechtenstein á Laugardalsvellinum.
Eiður Smári Guðjohnsen hafði átti metið frá 2006 og Kolbeinn Sigþórsson hafði átt það með honum undanfarin fjögur ár.
Gylfi skoraði sitt fyrsta mark 22 ára gamall en hann er nú 34 ára gamall.
Þetta var fyrsta landsliðsmarkið hans frá því í leik á móti Ungverjum í Búdapest í nóvember 2020.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar skemmtilegar staðreyndir um markamet Gylfa.

Markamet Gylfa í tölum
27
Gylfi er orðinn markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi en hann hefur skorað einu marki meira en Eiður Smári Guðjohnsen og Kolbeinn Sigþórsson.
80
Gylfi sló metið í sínum áttugasta landsleik. Hann hefur spilað færri leiki en Kolbeinn (64) en fleiri leiki en Eiður Smári (88). Hann skoraði líka í sínum sextugasta og sjötugasta landsleik.
6253
Eiður Smári Guðjohnsen var búinn að eiga markamet landsliðsins í 17 ár, 1 mánuð og 14 daga eða í samtals 6253 daga. Eiður jafnaði metið 2. september 2006 og sló það síðan rúmu ári síðar eða 13. október 2007.
4
Gylfi er aðeins fjórði leikmaðurinn sem eignast markametið. Albert Guðmundsson skoraði fyrstu mörk landsliðsins 1947. Ríkharður Jónsson jafnaði metið hans 1948 og sló það síðan 1951. Ríkharður átti það síðan einn til 2006 þegar Eiður Smári jafnaði það. Eiður átti það síðan einn frá 2007 til ársins 2019 þegar Kolbeinn Sigþórsson jafnaði það. Þeir Eiður og Kolbeinn áttu það síðan saman þar til í gærkvöldi.

7.10.2011
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir íslenska landsliði í leik á móti Portúgal haustið 2011. Hann var þá 22 ára og 29 daga gamall.
89%
Gylfi hefur skoraði 24 af 27 landsliðsmörkum sínum í keppnisleikjum. 14 í undankeppni EM, 8 í í undankeppni HM, 1 í úrslitakeppni HM og 1 í úrslitakeppni EM.
1
Gylfi er eini Íslendingurinn sem hefur skorað bæði í úrslitakeppni EM og úrslitakeppni HM. Hann skoraði á móti Ungverjum á EM 2016 og á móti Króatíu á HM 2018.
11
Gylfi hefur skorað fyrir íslenska landsliðið á ellefu almanaksárum eða 2011 (1), 2012 (1), 2013 (3), 2014 (4), 2015 (3), 2016 (2), 2017 (4), 2018 (2), 2018 (2), 2019 (2) 2020 (3) og 2023 (2). Hann hefur skorað á öllum árum sem hann hefur spilað nema fyrsta árið hans sem var 2010.
16
Gylfi hefur skorað á móti sextán þjóðum þar af var Liechtenstein tíunda þjóðin sem Gylfi nær að skora tvö eða fleiri mörk á móti.

3
Gylfi hefur skorað flest mörk á móti Holland eða þrjú. Hann skoraði þessi þrjú mörk í tveimur leikjum á móti Hollandi í undankeppni EM 2016.
5
Þetta var fimmta tvenna Gylfa fyrir landsliðið en hann hefur einnig skorað tvö mörk í landsleik á móti Slóveníu (2013), Hollandi (2014), Úkraínu (2017) og Rúmeníu (2020).
13 af 27
Gylfi hefur skorað 13 af landsliðsmörkum sínum á Laugardalsvellinum og það er bara Eiður Smári Guðjohnsen (16) sem hefur skorað fleiri landsliðsmörk á þjóðarleikvanginum.
9
Gylfi hefur skorað níu af landsliðsmörkum sínum úr vítaspyrnu.
76.
Þetta er uppáhaldsmínúta Gylfa með landsliðinu en hann hefur skorað þrjú af mörkum sínum á þessari mínútu. Hann hefur auk þess skorað tvö mörk á 78. mínútu.
