Íslenski boltinn

Rúnar nýr þjálfari Framara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson við undirritun samningsins í dag.
Rúnar Kristinsson við undirritun samningsins í dag.

Rúnar Kristinsson er tekinn við sem þjálfari Fram í Bestu deild karla í fótbolta og hann var því ekki lengi að finna sér nýtt starf eftir að hann hætti óvænt með KR í haust.

Rúnar var kynntur sem nýr þjálfari Fram upp í Úlfarsárdal í hádeginu. Samningur hans og Fram er til þriggja ára eða út 2026 tímabilið.

Framarar enduðu í tíunda sæti í Bestu deildinni í sumar en þeir voru í fallsætinu fram í síðasta leik. Tímabilið á undan voru Framarar, þá sem nýliðar, einu sæti ofar í töflunni.

Jón Sveinsson hætti þjálfun Framliðsins á miðju tímabili eftir þriggja og hálfs árs starf og Ragnar Sigurðsson kláraði tímabilið með liðinu.

KR-ingar gáfu það út rétt fyrir lok tímabilsins að Rúnar yrði ekki áfram með KR-liðið. Rúnar var búinn að þjálfa það samfellt frá árinu 2018 og alls á ellefu tímabilum af fjórtán frá árinu 2010. Rúnar gerði KR þrisvar sinnum að Íslandsmeisturum og þrisvar sinnum að bikarmeisturum.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Rúnar kemur nálægt öðru íslensku félagi en KR. Hann spilaði allan sinn meistaraflokksferil hér á landi með KR og hefur bara þjálfað KR hér heima.

Rúnar reyndi fyrir sér sem bæði þjálfari í Noregi og Belgíu á milli þess að hann þjálfaði KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×