Meðal þess sem talið er upp í málsvörn Everton er mál landsliðsmannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, sem var handtekinn grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi á þeim tíma sem hann var leikmaður félagsins.
Félagið tapaði alls um tuttugu milljónum punda umfram það sem leyfilegt er á þriggja ára tímabili í ensku úrvalsdeildinni. Í málsvörn sinni segir Everton að einn af sex áhrifaþáttum þess að félagið hafi eytt umfram það sem leyfilegt er sé mál Gylfa.
'Everton believed it should be rewarded for not taking legal action against Player X'
— Telegraph Football (@TeleFootball) November 17, 2023
✍️ @SamWallaceTel#TelegraphFootball | #EvertonFC
„Leikmaður X - Ákvörðun sem tekin var vegna þess að félagið hafði áhyggjur af andlegri líðan leikmannsins eftir að hann var handtekinn,“ segir í málsvörn Everton, en umræddur leikmaður X er Gylfi Þór Sigurðsson. Everton segist þar hafa tapað leikmanni sem hefði verið hægt að selja fyrir um tíu milljónir punda án þess að hafa fengið skaðabætur fyrir.
Félagið nefnir einnig kórónuveirufaraldurinn og stríðið í Úkraínu sem áhrifaþætti í málsvörn sinni, en rannsóknarnefndin sem tók ákvörðun um að stigin skyldu dregin af félaginu gaf lítið fyrir þessar útskýringar.