Landsliðsþjálfari Íslands, Åge Hareide, og fyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi á leikvanginum í dag að lokinni æfingu liðsins. Fundinn í heild sinni má sjá hér að neðan.
Ísland á ekki lengur möguleika á því að tryggja sér sæti á EM 2024 í Þýskalandi í gegnum undankeppnina eftir tap gegn Slóvakíu á dögunum. Hins vegar er enn möguleiki á því að liðið vinni sér inn sæti á mótinu í gegnum umspil Þjóðadeildar UEFA.
Verkefni morgundagsins gerist vart stærra. Portúgal hefur nú þegar tryggt sér sæti á EM og hefur ekki tapað stigi í undankeppninni, unnið alla sína leiki, og geta með sigri gegn Íslandi á morgun innsiglað fullkomið mót sitt.
Åge segir að nokkrir leikmenn séu að glíma við smávægileg meiðsli og tekin verði ákvörðun á morgun hvort þeir verði í hópnum eður ei. Hann sagði einnig að liðið þyrfti að verjast almennilega, nýta skyndisóknir og hafa trú á verkefninu. Nú snýst þetta um að byggja upp sjálfstraust fyrir leikina í umspilinu í mars á næsta ári.
Jóhann Berg sagðist vona að leikmenn væru búnir að jafna sig á tapinu gegn Slóvakíu en menn hefðu auðvitað verið mjög svekktir að leik loknum. Það þurfi að læra af þeim mistökum og gera betur á morgun.
Fundinn má sjá í heild sinni í spilaranum ofan í fréttinni. Leikur Portúgals og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá Stöðvar 2 Sport. Leikurinn hefst klukkan 19.45 annað kvöld.