Fótbolti

„Leikur gegn Ísrael mjög á­lit­legur kostur fyrir okkur“

Aron Guðmundsson skrifar
Jóhannes Karl er aðstoðarþjálfari Age Hareide hjá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta
Jóhannes Karl er aðstoðarþjálfari Age Hareide hjá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta Vísir/Getty

Jóhannes Karl Guð­jóns­son, að­stoðar­lands­liðs­þjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta, segir leið liðsins að EM sæti í gegnum um­spil í mars á næsta ári vera leið sem hægt sé að sætta sig við. Ís­land mun mæta Ísrael í undan­úr­slitum um­spilsins.

Dregið var í um­spilið í höfuð­stöðvum UEFA í Nyon í Sviss fyrr í morgun þar sem að Ís­land dróst í B-leið um­spilsins og mun mæta Ísrael í undan­úr­slitum og annað hvort Bosníu & Herzegóvínu eða Úkraínu í mögu­legum úr­slita­leik ef sigur vinnst gegn Ísrael.

Getum við ekki bara verið nokkuð á­nægð með þennan drátt?

„Jú ég held að þetta sé eitt­hvað sem við getum sætt okkur við,“ segir Jóhannes Karl í sam­tali við Vísi. „Maður hefði alltaf frekar vilja fara í þennan B-pott. Við enduðum þar og leikur á móti Ísrael er bara mjög á­lit­legur kostur fyrir okkur.“

Ís­land mun ekki leika á heima­velli í um­spilinu en lík­legt þykir að leikur liðsins gegn Ísrael í undan­úr­slitum muni ekki fara fram í Ísrael sökum ólgunnar fyrir botni Mið­jarðar­hafs.

„Við fengum því miður ekki mögu­leikann á því að fá heima­leik í seinni leiknum og lendum því í því að spila annað hvort við Bosníu & Herzegóvínu eða Úkraínu í úr­slitunum. Bæði þessi lið eru hörku lið en Úkraína kannski að­eins sterkari.

Við ætlum okkur náttúru­lega að gera þetta að tveggja leikja ein­vígi. Ætlum okkur á­fram úr viðureign okkar gegn Ísrael og þar verður væntan­lega spilað á hlut­lausum velli, alla­vegana eins og staðan er núna og það sama gæti gilt um mögu­legan úr­slita­leik gegn Úkraínu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×