Fótbolti

Allt stefndi í fall en Haugesund hélt sér uppi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson tekur við þjálfun Haugesund á næstu dögum en liðinu tókst að tryggja sér áframhaldandi sæti í úrvalsdeild í dag
Óskar Hrafn Þorvaldsson tekur við þjálfun Haugesund á næstu dögum en liðinu tókst að tryggja sér áframhaldandi sæti í úrvalsdeild í dag Mynd: Haugesund

Þrjú íslensk mörk litu dagsins ljós í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar. Bodø/Glimt hafði þegar tryggt sér titilinn en staðan var enn óráðin í fallbaráttunni og Haugesund tókst með ótrúlegum hætti að tryggja áframhaldandi sæti í efstu deild. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson getur þakkað Bilal Njie fyrir það að hann þjálfi lið í efstu deild á næsta tímabili. Staðan var orðin ansi dræm og allt stefndi í fall en Bilal Njie greip til sinna ráða, skoraði snögga þrennu og hélt Haugesund uppi. 

Ísak Snær Þorvaldsson var á skotskónum í liði Rosenborg sem lagði Viking óvænt en auðveldlega að velli. Ísak setti opnunarmarkið í fyrri hálfleik, Adrian Pereira tvöfaldaði svo forystuna áður en Ísak kom Rosenborg 3-0 yfir á 59. mínútu. 

Ísak Snær Þorvaldsson fagnar marki með RosenborgVísir/Getty

Sander Tangvik, markvörður Rosenborg, var rekinn af velli skömmu síðar og varamarkvörðurinn Andre Hansen tókst ekki að verja skot Zlatko Tripic sem minnkaði muninn fyrir Viking. Það gerði þó ekkert til því Rosenborg átti eftir að bæta tveimur mörkum við í uppbótartíma og loka leiknum 5-1. 

Viðar Ari Jónsson skoraði svo sitt fyrsta mark fyrir Ham/Kam í 1-1 jafntefli gegn Molde. Ari Leifsson og Logi Tómasson héldu marki Strömsgodset hreinu í 3-0 sigri á Brann. 

Viðar Ari er fyrrum FH-ingur sem leikur í dag með Ham/KamVísir/Vilhelm

Valeranga varð ekki eins heppið og Haugesund. Þeir komust marki yfir á 63. mínútu í leik sínum gegn Tromso og allt leit út fyrir áframhaldandi veru í efstu deild en gestirnir jöfnuðu í uppbótartíma. 

Nú tekur við umspilsleikur Valeranga gegn Kristiansund sem endaði í þriðja sæti næstefstu deildar. Brynjólfur Willumsson átti tvær stoðsendingar í 4-2 sigri gegn Kongsvinger sem tryggði Kristiansund umspilsleikinn gegn Valeranga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×