Ísland mun mæta Gvatemala þann 13. Janúar og svo Hondúras fjórum dögum síðar. Báðir leikirnir fara fram á Drive Pink Stadium í Flórída, heimavelli Inter Miami sem sjálfur Lionel Messi spilar með og er í eigu David Beckham.
Leikirnir eru ekki á opinberum landsleikjadögum FIFA og því er félagsliðum ekki skylt að gefa leikmönnum leyfi til að fara í leikina. Því er ljóst að aðeins hluti þeirra leikmanna sem koma til með að mæta Ísrael (og svo vonandi Bosníu eða Úkraínu) í umspilinu í mars verður með í janúar.
Miðað við heimslista FIFA eru bæði Hondúras og Gvatemala lakari landslið en Ísland. Lið Hondúras er í 76. sæti heimslistans, fimm sætum fyrir neðan Ísland, og Gvatemala er svo í 108. sæti listans. Ísland hefur aldrei mætt þessum landsliðum.
Bæði liðin tilheyra knattspyrnusambandi Mið- og Norður-Ameríku og hafa nýverið spilað við Jamaíku, lið Heimis Hallgrímssonar, svo það ættu að vera hæg heimatökin að leita upplýsinga hjá Eyjamanninum, kjósi Åge Hareide að gera svo.