Handbolti

Guð­mundur hefur aldrei lent í öðru eins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur séð margt á sínum þjálfaraferli en var samt í nýrri aðstöðu í síðustu viku.
Guðmundur Guðmundsson hefur séð margt á sínum þjálfaraferli en var samt í nýrri aðstöðu í síðustu viku. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Guðmundur Guðmundsson segist aldrei hafa lent í öðru eins og síðustu dagar hafa verið hjá danska félaginu Fredericia.

Guðmundur hefur gert frábæra hluti með lið Fredericia í vetur og um helgina vann liðið 30-29 sigur á Ribe-Esbjerg.

Þessi sigur var sá þrettándi á tímabilinu og skilaði liðinu fimm stiga forkosti á liðið í þriðja sæti. Fredericia er síðan þremur stigum á eftir toppliði Álaborg.

Þar með er ekki öll sagan sögð en Guðmundur fór betur yfir það sem gekk á í vikunni fyrir þennan dýrmæta sigur Fredericia.

Guðmundur þurfti nefnilega að vinna með mikil veikindi í sínum leikmannahópi en tókst samt að landa þessum sigri á útivelli.

„Það hafa verið tíu leikmenn veikir hjá okkur og þetta var mjög erfið vika. Við sýndum stórt hjarta og kláruðum dæmið. Við höfum ekki æft almennilega síðan í leiknum á móti Mors-Thy,“ sagði Guðmundur Guðmundsson í samtali við staðarblaðið Fredericia Avisen.

„Leikmennirnir sem komu til baka eftir veikindi höfðu ekki orku til æfa. Allir reyndu eins og þeir gátu og þetta var mjög stór sigur fyrir liðið,“ sagði Guðmundur.

„Ég vona að við séum komnir yfir þessi veikindi. Það hafa verið tíu leikmenn frá og ég hef aldrei lent í öðru eins sem þjálfari hjá félagsliði. Þetta hefur gerst áður með landsliðum en þá voru kringumstæðurnar allt öðruvísi,“ sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×