Þrennir tónleikar IceGuys fóru fram á laugardag og var uppselt á þá alla.
„Við hefðum líklega getað selt tvenna fulla tónleika í viðbót,“ segir Máni Pétursson einn skipuleggjanda tónleikanna sem segir tónleikahaldið hafa gengið vonum framar.
„Ég hef aldrei kynnst annarri eins eftirspurn.“
Segja má að Bítlaæði hafi gripið um sig vegna Iceguys í vetur. Sjónvarpsþáttaröð fimmmenninganna sló í gegn og ekki er annað að heyra en ánægju af tónleikunum. Talandi um Bítlaæði þá voru dæmi um að spenntir aðdáendur féllu í yfirlið á tónleikunum.
Aðspurður segir Máni einn pilt hafa fallið í yfirlið á tónleikum yfir daginn en sjálfur hefði hann ekki heyrt af fleiri tilfellum. Fréttastofu er kunnugt um annað yfirlið í fremstu víglínu kvöldtónleikanna þar sem táningsstúlka var á ferð. Hugað var að henni af sjúkraliðum sem gáfu henni ávaxtasafa áður en hún gat borið goðin augum á nýjan leik.
Máni segir allan söluvarning sem seldur var á tónleikunum hafa selst upp, svo mikið sé IceGuys brjálæðið.
„Þetta var með því ruglaðra sem ég hef upplifað.“
Mikil eftirvænting var eftir tónleikunum og sást það vel á Facebook þráðum þar sem foreldrar og aðrir óskuðu eftir miðum á tónleikana.
Ísdrengirnir sem skipa IceGuys gengið eru þeir Aron Can, bræðurnir Friðrik Dór og Jón Ragnar Jónsson, Herra hnetusmjör og Rúrik Gíslason en þeir hafa notið mikilla vinsælda. Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra hnetusmjör, lofaði aðdáendum á tónleikunum öðrum sambærilegum tónleikum á næsta ári.
„Sjáum ykkur eftir ár,“ sagði hann þegar hann gekk út af sviðinu á laugardag.