Þorgerður var dómari í sjónvarpsþáttunum Ísland got Talent á Stöð 2 fyrir áratug þar sem Laufey Lín vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína.
„Tæpum 10 árum eftir Ísland got Talent rekst ég á þessar einstöku systur og snillinga. Ég var dálítið stjörnuslegin,“ segir Þorgerður Katrín á Instagram.
Laufey og Junia eru komnar til Íslands í kærkomið jólafrí. Laufey Lín hefur slegið í gegn á árinu sem er að líða og ekki síst á samfélagsmiðlum þar sem hún nýtur aðstoðar tvíburasystur sinnar.
Eðli máls samkvæmt hefur Laufey Lín þróast mikið sem tónlistarkona undanfarinn rúman áratug. Í safni Vísis má finna fjölmörg myndbönd af stórstjörnunni sem tilnefnd er til Grammy-verðlauna í ár.
Laufey Lín syngur Singing in the Rain í Leitinni að jólastjörninni árið 2011.
Árið eftir söng hún lagið Glæddu jólagleði í þínu hjarta.
Svo var komið að Ísland got Talent árið 2014 þar sem Laufey fór á kostum. Hún komst því miður ekki í úrslitin á endanum en er óumdeilanlega sá keppandi sem hefur náð lengst í tónlistinni, nú níu árum síðar.