Enski boltinn

Lög­reglan rann­sakar kynþáttaníð í garð fram­herja Luton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlton Morris, framherji Luton Town, ræðir við dómara leiksins gegn Sheffield United, Sam Allison.
Carlton Morris, framherji Luton Town, ræðir við dómara leiksins gegn Sheffield United, Sam Allison. getty/Mike Egerton

Lögreglan í Suður-Jórvíkurskíri á Englandi rannsakar nú meint kynþáttaníð sem leikmaður Luton Town, Carlton Morris, varð fyrir í leiknum gegn Sheffield United í gær.

Morris kom inn á sem varamaður í leiknum á Bramall Lane í gær og átti stóran þátt í tveimur sjálfsmörkum Sheffield United sem tryggðu Luton sigurinn, 2-3.

Dagurinn var þó ekki bara ánægjulegur fyrir Morris því varð fyrir kynþáttaníði úr stúkunni. Morris greindi dómara leiksins, Sam Allison, frá því. Allison varð í gær fyrsti svarti dómarinn sem dæmir leik í ensku úrvalsdeildinni í fimmtán ár.

„Ég heyrði eitthvað frá stuðningsmönnunum í fremstu röð og vissi að það væri best að tilkynna þetta strax og láta þá eiga við þetta,“ sagði Morris.

Málið er nú komið inn á borð lögreglunnar í Suður-Jórvíkurskíri. Sheffield United hefur heitið því að aðstoða lögregluna á allan hátt við rannsókn málsins.

Luton, sem hefur unnið tvo leiki í röð, er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig. Morris hefur leikið alla átján deildarleiki Luton á tímabilinu og skorað þrjú mörk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×