Sport

ESPN baðst af­sökunar að hafa sýnt ber­brjósta konu í beinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Texas Longhorns liðsins hlaupa inn á völlinn fyrir leikinn um Sykurskálina.
Leikmenn Texas Longhorns liðsins hlaupa inn á völlinn fyrir leikinn um Sykurskálina. Getty/Nick Tre. Smith

Bandaríski háskólafótboltinn er í sviðsljósinu á nýársdag og svo var einnig í ár. Svo fór þó að ESPN sjónvarpsstöðin þurfti að biðja áhorfendur sína afsökunar eftir leikinn.

ESPN sýndi þarna leik Washington og Texas um Sykurskálina en þessi leikur fer alltaf fram í Superdome í New Orleans.

Eins og vaninn er í bandarískum útsendingum frá kappleikum þá eru sýndar reglulega myndir frá borginni þar sem leikurinn fer fram.

Svo var einnig nú og skipt var yfir á hina frægu gleðigötu Bourbon Street þegar komið var út úr einu auglýsingahléinu.

Það tókst þó ekki betur en svo en á þeim stutta tíma sem myndavélin sýndi lífið á Bourbon Street þá tókst ónefndri konu að flassa myndavélina.

ESPN náði ekki að klippa nógu fljótt út úr mynd og myndirnar af berbrjósta konunni fóru á mikið flug á samfélagsmiðlum.

„Við hörmum það að þetta gerðist og biðjumst afsökunar á því að þessar myndir hafi farið í loftið,“ sagði Bill Hofheimer, talsmaður ESPN við Associated Press.

Það er seinkun á mynd í beinum útsendingum en næst þegar sýnt er frá gleðigötunni í einni mestu skemmtanaborg Bandaríkjanna þá borgar sig kannski að bæta þar við nokkrum sekúndum svona til öryggis.

Washington tryggði sér Sykurskálina í ár með 37-31 sigri á Texas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×