Viðskipti innlent

Birta nýr fram­kvæmda­stjóri hjá Arctic Adventures

Atli Ísleifsson skrifar
Birta Ísólfsdóttir.
Birta Ísólfsdóttir. Aðsend

Birta Ísólfsdóttir hefur verið ráðin í nýja stöðu framkvæmdastjóra sölu-, markaðsmála og þjónustuupplifunar hjá Arctic Adventures. Hún hefur þegar hafið störf og tekið sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Í tilkynningu segir að Birta hafi verið ráðin markaðsstjóri Arctic Adventures í byrjun síðasta árs. Hún hafi víðtæka reynslu af markaðsmálum og hafi áður starfað hjá markaðs- og aug­lýs­inga­stof­unni KIWI, NTC og 66°Norður.

„Ráðning Birtu er liður í skipulagsbreytingum og framþróun hjá Arctic Adventures með það að leiðarljósi að efla og auka þjónustuframboð til viðskiptavina ásamt því að styrkja sjálfbæra þróun fyrirtækisins“ segir í tilkynningunni. 

Haft er eftir Ásgeiri Baldurs, forstjóra Arctic Advntures að fyrirtækið sé á spennandi stað og í stöðugri þróun. „Birta er kröftug og framsækin og er rétta manneskjan til að leiða þá uppbyggingu sem við erum að ráðast í með bættri þjónustuupplifun þvert á félagið, ásamt því að innleiða nýja sjálfbærnistefnu hjá okkur og dótturfélögum okkar,“ segir Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures.

Hjá Arctic Adventures starfa tæplega 250 manns og er stefna ferðaþjónustufyrirtækisins að skapa ábyrgt og öruggt aðgengi að áfangastöðum í íslenskri náttúru auk þess að bjóða upp á sjálfbæra og vistvæna ferðaþjónustu um allt land.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×