Það var Finnur Tómas Pálmason sem skoraði fyrsta mark leiksins á 39. mínútu er hann kom KR-ingum í forystu þegar hann kom boltanum í netið eftir klafs í teignum. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins og KR-ingar fóru því með 1-0 forystu inn í hálfleikshléið.
KR-ingar fengu svo tækifæri til að gera út um leikinn á 84. mínútu þegar Gísli Gottskálk Þórðarson braut af sér innan vítateigs og vítaspyrna var dæmd. Sigurður Bjartur Hallson fór á punktinn, en Ingvar Jónsson varði frá honum áður en Ingvar varði einnig eftir að Sigurður tók frákastið.
Víkingar áttu því enn von og Sveinn Gísli Þorkelsson tryggði liðinu vítaspyrnukeppni með marki í uppbótartíma eftir stoðsendingu frá Danijel Dejan Djuric.
Bæði lið skoruðu úr fyrstu þremur spyrnum sínum í kvöld áður en Gísli Gottskálk Þórðarson lét Sigurpál Sören Ingólfsson verja fjórðu spyrnu Víkings frá sér. Hrafn Tómasson kom KR-ingum í forystu í næstu spyrnu áður en Ari Sigurpálsson skoraði úr fimmtu spyrnu Víkinga.
Sigurður Bjartur Hallsson, sem hafði misnotað vítaspyrnu í venjulegum leiktíma, tók fimmtu spyrnu KR og gat þar með tryggt liðinu sigur. Í þetta sinn brást honum ekki bogalistinn og KR-ingar fögnuðu sigri í vítaspyrnukeppni, 5-4.