Ragnar er andlega þenkjandi og á fleiri verkfæri en fjölmiðlana til að ná þessu markmiði. Í síðasta þætti af Fólk eins og við fengu áhorfendur sýnishorn af Ragnari að nota þessi andlegu verkfæri.
„Ef ég á að nefna eitthvað eitt sem ég er góður í er að deila minni reynslu með fólki. Það gefur mér alveg endalaust. Það hefur gefið mér mikið að finna eitthvað sem ég er virkilega góður í því ég hafði enga trú á sjálfum mér og hélt að ég myndi aldrei finna minn hæfileika, svo já ég hef gaman af því að hjálpa öðrum. Ég hef gaman af því að sjá samfélagið breytast,“ segir Ragnar og heldur áfram.
„Nú er bara kominn tími til að við fáum bara að lifa og fáum almennilega lífsgæði. Ef þið ætlið ekki að hjálpa okkur og veita okkur það, þá bara ekki vera fyrir mér. Það er bara um tvennt að velja, að halda stöðunni eins og hún er og láta þetta bara versna eða bara virkilega taka til höndunum og sjá þetta blómstra og sjá þetta bara gerast.“
Fólk eins og við er fjögurra þátta heimildarþáttaröð um heimilisleysi á Íslandi og nýja nálgun stjórnvalda í vímuefnamálum.