Umræðan

Gervi­greind eða dauði?

Eyþór Jónsson skrifar

David R. Beatty, einn helsti sérfræðingur Kanadamanna um góða stjórnarhætti, hélt fyrirlestur hjá Akademias í vikunni. Hann var að ræða um mikilvægi þess að stjórnir fylgist með tækni og nýsköpun og nefndi þá sérstaklega sem dæmi gervigreind og tæki eins og chatGPT. David var ekkert að skafa utan af því frekar en fyrri daginn þegar hann sagði að annaðhvort myndu íslensk fyrirtæki tileinka sér þessa nýju tækni eða deyja!

Skapandi eyðilegging

Austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter talaði um skapandi eyðileggingu á sínum tíma og benti á að ný tækni og nýsköpun gætu gert atvinnugreinar og fyrirtæki úrelt. chatGPT er sú tækni sem hefur náð langmestri útbreyðslu á stystum tíma í sögu mannkynsins. Útbreiðslan var talin í dögum frekar en áratugum eins og svo oft áður þegar ný tækni hefur komið inn á markaðinn. Áskorunin sem íslenskir stjórnendur standa frammi fyrir eru krossgötur þar sem annað hvort er að tileinka sér og nýta gervigreind eða að horfa upp á meðan tækifærin líða hjá. Að vera skapandi frekar en að upplifa eyðileggingu - og hugsanlega endalok fyrirtækisins.

Margir eru fljótir að benda á að þetta er nú bara grófar ýkjur úr heimi tækninnar. Á sama tíma erum við hins vegar að sjá í vaxandi mæli viðskiptamódel, vörur og þjónustu sem eru byggð í kringum tæki eins og chatGPT. Guðjón Már í Oz líkti þessu, í fyrirlestri hjá Akademias við umbreytinguna sem varð þegar við tengdum saman tölvur heimsins til þess að búa til internetið, nema hvað þessi bylting er líkleg til þess að verða miklu áhrifaríkari, þ.e. bæði sköpunarmátturinn og eyðileggingin verður meiri. Það er erfitt að finna mörg fyrirtæki sem eru að öllu leyti fyrir utan internetið, það verður enn erfiðara að finna fyrirtæki, eftir einungis örfá ár, sem eru ekki að nýta sér tæki gervigreindarinnar.

Hættan er sú, sem David Beatty benti á, að hvorki stjórnendur né stjórn hafi nægilegt tæknilæsi til þess að skilja hver áhrif tæknibreytinga geta verið. Þetta er sagan af því þegar haltur leiðir blindan.

Að bera fyrir sig ýkjur og nálgast þessa umbreytingu af áhuga- og aðgerðaleysi er afneitun. Slíka forstjóra þarf að reka, sagði David Beatty, sem hafa ekki skilning á áhrifum tæknibreytinga. Það er verkefni og ábyrgð stjórna fyrirtækja að reka slíka forstjóra sem eru í engum takt við umhverfið og það sem mótar samkeppnisaðstæður framtíðarinnar. Ef ekki, þá verður fyrirtækið fórnarlamb skapandi eyðileggingar.

Blindur leiðir haltan

Við hjáAkademias höfum verið að gera eigindlegar rannsóknir og tilraunir til þess að reyna að meta hvernig viðhorf íslenskra fyrirtækja er gagnvart nýrri gervigreinartækni eins og chatGPT. Niðurstaðan virðist vera þekkingarskortur og að einhverju leyti vandamálið sem felst í frasanum; þú veist ekki það sem þú veist ekki! Sem dæmi þá bjóðum við upp á námskeið sem snýst um að hjálpa stjórnendum og starfsmönnum að skilja hvernig er hægt að auka verðmætasköpun fyrirtækja með gervigreindartækni eins og chatGPT. Tilgátan var að ef stjórnendur íslenskra fyrirtækja væru meðvitaðir um tækifærin sem felast í þessari nýja tæki að þá myndi námskeiðið seljast upp á örstuttum tíma. Niðurstaðan er hins vegar að það hefur reynst helsta verkefnið að ræða við stjórnendur af hverju þeir ættu að fjárfesta í tíma til að læra um hvernig þeir gætu innleitt þessi tækni í fyrirtæki.

Eyþór Jónsson, forseti Akademias.

Auðvitað er hægt að halda því fram að stjórnendur geti og hafi einfaldlega kynnt sér þessi mál sjálfir. Okkar rannsóknir benda hins vegar ekki til þess heldur frekar að þeir hafi ekki áhuga á þessum tækninýjungum... nema hugsanlega sem dægradvöl. Ef mörg fyrirtæki eru ekki að nálgast þessar umbreytingar, hvorki sem stefnumótandi áhrifaþátt né sem breytingu á skipulagi og uppbyggingu þá er ástæða til að hafa áhyggjur. Það er erfitt að sjá hvernig íslenskum fyrirtækjum getur vegna vel áfram þegar gervigreindartækni hjá samkeppnisaðilum getur bæði dregið úr kostnaði og sóun og fjölgað tekjutækifærum. Sum fyrirtæki þurfa að gera gervigreind að kjarnafærni, önnur þurfa allavega að innleiða nýja ferla sem eru að hluta til eða öllu leyti byggðir á gervigreind.

Hættan er sú, sem David Beatty benti á, að hvorki stjórnendur né stjórn hafi nægilegt tæknilæsi til þess að skilja hver áhrif tæknibreytinga geta verið. Þetta er sagan af því þegar haltur leiðir blindan. Þeir bæta hvern annan upp en eru ólíklegir til afreka. Einhver myndi þó sennilega segja að þetta er frekar dæmi um að blindur leiðir haltan sem er líklegt til að leiða fyrirtækið í ógöngur fyrr en seinna.

Fyrirtæki fyrir aðra framtíð

Af því að ég hef nýlega verið að spjalla um nýja íslenska þýðingu Kára Finnssonar á bók Peter Druckers um Árangursríka stjórnandann (The Effective Executive) er tilefni til að vitna í aðra bók hans frá 1955, Managing for results. Þar segir Drucker að stjórnandinn hafi þrjú meginverkefni: (1) að gera núverandi viðskipti skilvirk; (2) að greina möguleika fyrirtækis og veruleika sem það hrærist í; (3) og að gera fyrirtækið að öðru fyrirtæki fyrir aðra framtíð.

Íslenskir stjórnendur standa á tímamótum eins og allir aðrir stjórnendur í heiminum og verða að meta hver áhrif gervigreindar og tækni eins og chatGPT munu verða á þeirra fyrirtæki og atvinnugrein.

Það er þetta þriðja hlutverk - að gera fyrirtækið að öðru fyrirtæki fyrir aðra framtíð - sem er oft vanrækt. Í stöðugum heimi þar sem umhverfið er ekki að taka miklum breytingum getur verið réttlætanlegt að takmarka þann tíma sem fjárfest er í þessari vinnu fyrir tækifæri framtíðarinnar. En í kvikum heimi þar sem breytingar, sérstaklega í tæknibreytingar, eru að hafa veruleg áhrif á líf og hegðun fólks, verðmætasköpun og samkeppnisaðstæður fyrirtækja er erfitt að réttlæta andleysi stjórnenda gagnvart þessum þriðja þætti.

Áhrif gervigreindar eins og þau birtast í tækni eins og chatGPT gefa fullt tilefni til að virkja vinnu sem snýst um að búa til annað fyrirtæki fyrir aðra framtíð, eins og Drucker vildi meina að væri grundvöllur árangurs til lengri tíma. Árið 2016 sagði forstjóri Google, Sundar Pichai, að áhersla Google fyrir framtíðina væri: AI first! Þessi yfirlýsing Pichai hefur í seinni tíð orðið þekkt varða í viðskiptasögunni og er birtingarmynd áherslu forstjóra á nýtt fyrirtæki fyrir nýja framtíð, þar sem kjarnafærni félagsins er gervigreind.

Íslenskir stjórnendur standa á tímamótum eins og allir aðrir stjórnendur í heiminum og verða að meta hver áhrif gervigreindar og tækni eins og chatGPT munu verða á þeirra fyrirtæki og atvinnugrein. Í framhaldinu verða þeir, ásamt stjórn fyrirtækja, að taka ákvörðun um hvort að stefnan ætti að vera að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist eða að umbreyta fyrirtæki í takt við breyttan veruleika.

Höfundur er forseti Akademias.




Umræðan

Sjá meira


×