Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta spilar í dag úrslitaleik um sæti í A-deild undankeppni EM 2025. Mótherjinn er Serbía og liðin standa alveg jöfn eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í Serbíu.
Leikurinn fer fram á gervigrasvellinum í Kópavogi og hefst klukkan 14.30.
Sagan er svo sannarlega með stelpunum okkar í liði. Serbneska kvennalandsliðið hefur komið þrisvar til Íslands og fengið skell í öll skiptin. Allir þrír leikirnir hafa farið fram á Laugardalsvellinum og íslensku stelpurnar hafa unnið þá alla með markatölunni 19-1.
Síðast komu þær serbnesku í heimsókn í september 2014 og vann íslenska liðið þá 9-1. Ísland var þá undir stjórn Freys Alexanderssonar. Glódís Perla Viggósdóttir er eini leikmaður íslenska liðsins í dag sem tók þátt í þeim leik. Glódís skoraði þá annað mark íslenska liðsins í leiknum sem var hennar fyrsta mark fyrir A-landsliðið.
Dagný Brynjarsdóttir, Rakel Hönnudóttir og Harpa Þorsteinsdóttir og skoruðu allar tvennu í leiknum. Arna Sif Ásgrímsdóttir og markvörðurinn Þóra Björg Helgadóttir skoruðu líka.
Markið skoraði Þóra úr vítaspyrnu á 67. mínútu en þetta var kveðjulandsleikur hennar. Þóra skoraði þarna sitt fyrsta og eina mark í landsleik númer 108.
Fyrstu tvo leiki þjóðanna á Íslandi unnu íslensku stelpurnar 5-0. Fyrst í júní 2007 og svo aftur í ágúst 2009. Sigurður Ragnar Eyjólfsson stýrði íslenska liðinu í báðum þeim leikjum.
Dóra Stefánsdóttir, Katrín Jónsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir skoruðu mörkin í fyrri leiknum þar sem fimmta markið varð sjálfsmark.
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði fernu í seinni leiknum og þá skoraði Katrín Jónsdóttir fimmta markið.