Auk þess að kjósa formann var einnig kosið um fjögur sæti í stjórn Knattspyrnusambands Íslands í íþróttamiðstöð Fram í Úlfarsárdal um liðna helgi.
Báðir varaformenn sambandsins duttu út úr stjórninni. Annar bauð sig ekki fram en hinn náði ekki endurkjöri.
Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar KSÍ í gær, miðvikudaginn 28. febrúar 2024, var samþykkt að skipa Helgu Helgadóttur fyrsta varaformann og Inga Sigurðsson annan varaformann.
Helga tekur þar með við af Borghildi Sigurðardóttur sem hefur verið varaformaður sambandsins undanfarin ár. Borghildur hætti í stjórninni núna.
Borghildur og Sigfús Ásgeir Kárason voru varaformenn Vöndu Sigurgeirsdóttur á síðasta kjörtímabili hennar.
Tveggja ára kjörtímabili Sigfúsar lauk einnig á þessu ársþingi en hann náði ekki endurkjöri í stjórn.